Verð á bandarískri hráolíu féll um 310% í dag. Verð á olíutunnu af West Texas Intermediate ( WTI ), sem afhenta á í maí samkvæmt framvirkum samningum, er orðið neikvætt um 38,5 dollara. Fram eftir degi stóð verðið lengi í 1 dollar en síðdegis hrundi það algjörlega. Ef olían er afhent kaupanda í nóvember er virði hennar margfalt meira. Þetta þýðir að olíumiðlarar reyna hvað þeir geta að koma olíu í geymslu. Verð á bandarískri olíu hefur ekki verið lægra síðan framvirkir samningar voru teknir upp árið 1983.

„Ef þú finnur geymslupláss þá geturðu hagnast vel," segir Reid I’Anson , hagfræðingur hjá Kpler Inc. í viðtali við Wall Street Journal . Með því að koma olíu í geymslu eru miðlarar að treysta á að áhrif heimsfaraldursins muni dvína eftir því sem líður á árið. Þar af leiðandi muni eftirspurn eftir olíu aukast og verðið hækka.

Það er samt ekki auðvelt að finna geymslupláss fyrir olíu. Segja má að allar geymslur séu að flæða yfir. Sex mánaða samningur um geymslu í VLCC -olíuskipi (e. Very Large Crude Carriers ) hefur á einu ári hækkað úr 29 þúsund dollurum á dag í 100 þúsund dollara. Árssamningur hefur hækkað úr 30.500 dollurum á dag í 72.500 á sama tímabili.

Verð Brent -olíu lækkaði um tæplega 8% í dag og stendur nú í tæplega 26 dollurum.