Bandaríska hagkerfið tók við sér á öðrum ársfjórðungi er hagvöxtur mældist um 3,0%, samkvæmt fyrstu tölum frá bandaríska viðskiptaráðuneytinu.
Um er að ræða marktækan bata eftir að hagkerfið dróst saman um 0,5% á fyrsta ársfjórðungi, þegar fyrirtæki flýttu innflutningi vegna væntanlegra tolla sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði boðað.
Hagvöxturinn var töluvert yfir væntingum markaðsaðila. Hagfræðingar sem Wall Street Journal hafði rætt við gerðu einungis ráð fyrir 2,3% vexti.
Tölurnar endurspegla áhrif breytinga í utanríkisviðskiptum og sveiflukenndan innflutning, sem hefur stýrt hluta af hagvextinum, frekar en undirliggjandi eftirspurn heima fyrir.
Einkaneysla jókst um 1,4% á tímabilinu en var dregin niður af lakari fjárfestingum atvinnulífsins.
Afar lítið atvinnuleysi
Samkvæmt WSJ benda undirliggjandi tölur þó til þess að það dragi heldur úr einkaneyslu og fjárfestingu á næstu misserum.
Ársfjórðungurinn markaðist af umdeildum tollaáætlunum Trumps en áformin eru líkleg til að hafa áhrif á þriðja ársfjórðung einnig. Trump hefur gefið fjölmörgum ríkjum frest til 1. ágúst til þess að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin.
Þessi óvissa virðist hafa kælt fjárfestingaráform og haft áhrif á neytendavitund.
Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi verið lágt (4,1% í júní) og auknar ráðningar (að meðaltali 150.000 ný störf á mánuði á 2. ársfjórðungi), þá bendir neysluhegðun til varkárni.
Neytendur draga saman seglin
Procter & Gamble, sem oft telst vísir um þróun í neysluhegðun bandarískra heimila, greindi frá því í nýlegu uppgjöri sínu að neytendur væru að nýta birgðir sínar betur, fresta kaupum og heimsækja verslanir sjaldnar.
„Við sjáum greinileg merki um að neytandinn sé undir einhverju álagi,“ sagði Andre Schulten, fjármálastjóri P&G, sem framleiðir m.a. Tide þvottaefni og Pantene sjampó.
Þrátt fyrir að tollastefna og innflytjendamál séu áberandi í opinberri stefnu Trumps hafa áhrif þeirra á hagvöxt og verðbólgu ekki verið afgerandi hingað til.
Verðbólga jókst lítillega í júní, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, en ekki í mæli sem vekur stórar áhyggjur.
Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase, orðaði stöðuna þannig á dögunum:
„Við höfum í raun verið í mjúkri lendingu um nokkurt skeið – og hingað til hefur hagkerfið sýnt seiglu. Vonandi heldur það áfram.“