Bandaríska hagkerfið dróst saman á fyrstu þremur mánuðum ársins. Árstíðaleiðrétt verg landsframleiðsla í Bandaríkjunum á fyrsta fjórðungi lækkaði um 0,3% á ársgrundvelli á föstu verðlagi.

Þetta er mesti samdráttur bandaríska hagkerfisins frá fyrsta ársfjórðungi 2022. Hagfræðingar í könnun The Wall Street Journal höfðu spáð 0,4% vexti.

Í umfjöllun WSJ segir að tölur um landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi endurspegli hvernig hagkerfið þróaðist á sama tíma og nýir tollar ríkisstjórnar Donalds Trumps byrjuðu að taka gildi. Bent er á að tollarnir voru hækkaðir verulega á yfirstandandi fjórðungi. Innflutningur jókst um 41,3% milli ára en útflutningur um 1,8%.

Tölunum yfir landsframleiðslu er lýst sem fyrstu stóru vísbendingunum yfir þróun efnahagsmála fyrir tímabilið janúar til mars. Á þessu tímabili tók Donald Trump við forsetaembættinu af Joe Biden. Einnig er bent á að í janúar hafi verið umfangsmiklir skógareldar í Los Angeles.