Bandaríska menntamálaráðuneytið áætlar að það muni þurfa að segja upp rúmlega helmingi allra starfsmanna ráðuneytisins. Niðurskurðurinn er hluti af áætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að draga úr opinberum gjöldum.

Á vef BBC segir að hátt í 2.100 manns verði sagt upp frá og með 21. mars næstkomandi en ráðuneytið er með rúmlega fjögur þúsund starfsmenn.

Ráðuneytið, sem stofnað var árið 1979, fær 238 milljarða dala á ári frá Bandaríkjastjórn. Það hefur meðal annars umsjón með fjármögnun ríkisrekinna skóla, umsjón námslána og rekur verkefni sem hafa það markmið að hjálpa námsmönnum tekjulágra fjölskyldna.

Trump hefur hins vegar sakað ráðuneytið um að innræta ungt fólk með óviðeigandi kynferðislegu og pólitísku efni. Ráðuneytið sér hins vegar ekki um að reka skólana og kemur hvergi nálægt framleiðslu á námsefni.