Fjöldi gámaskipa sem sigldu til eða frá skipahöfn Seattle og Tacoma milli 1.-15. apríl þessa árs hefur dregist saman um 27% miðað við sama tíma í fyrra. Milli 1.-24. apríl var samdrátturinn 12% og fækkaði eins bílaflutningum með skipum um 36%.
The Seattle Times greinir frá þessu og segir Alex Smith, fyrrum sérfræðingur í skipabúnaði sem býr við höfnina, í samtali við blaðið að þróunin ætti að reynast alvarleg viðvörunarbjalla í stigmagnandi viðskiptastríði milli Kína og Bandaríkjanna.
Hann segir að þróunin snúist ekki aðeins um vöruflutninga heldur muni hún hafa keðjuverkandi áhrif á bandarískt efnahagslíf.
„Ef færri skip sigla til Bandaríkjanna mun það þýða að fleiri fyrirtæki munu ekki geta fengið þá íhluti sem þau þurfa. Smásalar og neytendur fá ekki vörur sínar og bændur og framleiðendur missa líka af erlendum mörkuðum.“
Sérfræðingar telja að áhrif tollastríðs Donalds Trumps, sem fyrirtæki og hafnarstarfsmenn í Seattle finna nú þegar fyrir, verði enn sýnilegri í maí og júní þar sem vöruflutningar með skipum taka oft fleiri vikur.
Mörg bandarísk fyrirtæki byrjuðu að undirbúa sig fyrir þróunina í fyrrasumar með því að flytja inn aukabirgðir vegna áhyggna um að þáverandi frambjóðandi, Donald Trump, yrði endurkjörinn og myndi standa við kosningaloforð sín um að hækka tolla.
Það kaupæði hefur verið sýnilegt fram að fyrstu þremur mánuðum þessa árs en rúmlega 666 þúsund gámar voru fluttir inn og út frá höfnum Seattle og Tacoma á þeim tíma. Það samsvaraði 24% aukningu miðað við fyrsta ársfjórðung 2024.
Hafnarfulltrúar og fyrirtæki á svæðinu eru hins vegar þegar byrjuð að finna fyrir samdrættinum og hafa áhyggjur af þeim keðjuverkandi áhrifum sem þróunin gæti haft fyrir tengda starfsemi eins og trukkabílstjóra og þjónustuaðila.