Bandarískir hafnarstjórar vara við því að fyrirhugaðir tollar Donalds Trumps á kínverska krana gætu hækkað uppfærslu- og viðhaldskostnað um tugi milljóna dala. Þetta kemur fram á vef WSJ.
Þar segir að ríkisstjórn Trump hafi lagt til að leggja 100% tolla á kínverska krana og búnað sem tengist meðhöndlun á fraktflutningum til að sporna gegn yfirráðum Kínverja í sjóflutningum.
Fulltrúar innan geirans segja hins vegar að gjöldin muni bætast við þá 25% tolla sem kynntir voru undir stjórn Biden og að gjöldin muni reynast mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki. Þar að auki benda þau á að ekki sé tekið tillit til skorts á krönum sem framleiddir eru utan Kína.
Kínverska fyrirtækið Shanghai Zhenhua Heavy Industries, eða ZPMC, sér fyrir rúmlega 80% af öllum skipaflutningskrönum sem staðsettir eru í bandarískum höfnum.