Aðalhagfræðingur Hvíta hússins sagði bændur í Bandaríkjunum myndu sporna gegn hugsanlegum skorti á matvælum þar í landi, sem stafaði af innrás Rússlands í Úkraínu, með aukinni framleiðslu, segir í frétt Bloomberg .
„Við búumst ekki við skorti hérna, því við flytjum meira út en við flytjum inn," sagði Cecilia Rouse, formaður Efnahagsráðs Bandaríkjaforseta.
Að hennar sögn væri Efnahagsráðið hins vegar mjög meðvitað um þá staðreynd að sum svæði í heiminum væru mjög háð útflutningi hveitis og annarrar kornvöru frá Rússlandi og Úkraínu.
Hún býst við því að markaðurinn muni virka sem skyldi; bændur muni nýta sér hærri verð og framleiða meira. „Samferða hækkandi verðlagi á matvöru munu þeir bregðast við stöðunni með því að sá meiru og nýta þannig verðhækkanirnar sér í hag."