Tugþúsundir hafnarstarfsmanna í höfnum víðs vegar um Bandaríkin hafa farið í verkfall. Meðlimir í verkalýðsfélaginu International Longshoremen‘s Association lögðu niður störf í 14 höfnum frá Maine til Texas.

Verkfallið hefur lokað fyrir gámaflutninga í þeim höfnum og hafa slíkar aðgerðir ekki sést í 50 ár. Talið er að verkfallið muni hafa veruleg áhrif á efnahagsþróun landsins í aðdraganda kosninga ásamt verslun fyrir komandi jól.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur vald til að fresta verkfallinu í 80 daga til að reyna á frekari samningsviðræður en Hvíta húsið segir að það muni ekki bregðast við með slíkum aðgerðum. Viðræður hafa legið niðri í marga mánuði og rann út samningur í gær.

Báðar hliðar deila nú um sex ára samning sem nær til 25 þúsunda hafnarstarfsmanna sem vinna í gámaflutningum.

Harold Daggett, formaður verkalýðsfélagsins, hefur kallað eftir umtalsverðum launahækkunum fyrir félagsmenn og hefur samtímis lýst yfir áhyggjum af vélvæðingu innan geirans.