Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 234 þúsund í nýliðnum júní samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu, eða um 10,1% fleiri en í júní 2024. Um tvær af hverjum fimm brottförum má rekja til Bandaríkjamanna.
Á fyrstu sex mánuðum ársins fóru um 955 þúsund erlendir farþegar frá Íslandi. Um er að ræða 0,8% færri brottfarir en á sama tíma í fyrra.
41,6% Bandaríkjamenn
Um 97 þúsund Bandaríkjamenn fóru frá landinu í júní, samkvæmt tölum Ferðamálastofu, eða um 19,7% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Bandaríkjamenn voru um 41,6% af erlendum ferðamönnum í júní.
Til samanburðar voru Þjóðverjar í öðru sæti með um 18 þúsund brottfarir, eða um 7,7% af erlendum farþegum, en þeim fjölgaði um 23,7% frá sama tímabili í fyrra. Kanadamenn voru í þriðja sæti með um ríflega 10 þúsund brottfarir.
Í fjórða sæti voru Bretar (4,4% af heild) með um 10 þúsund brottfarir og fjölgaði þeim um 4,6% frá fyrra ári.
Ferðalögum Íslendinga fjölgað um 25%
Brottfarir Íslendinga voru tæplega 72 þúsund í júní, 10,4% fleiri en í sama mánuði 2024.
Frá áramótum hafa Íslendingar farið utan um 372 þúsund sinnum, sem er 24,9% aukning frá sama tíma í fyrra.