Öll helstu hlutabréf og vísitölur lækkuðu í Kauphöllinni í New York í gær eftir að Moodys lækkaði lánshæfismat hjá tíu svæðisbundnum bönkum og ellefu lánastofnunum.
Fjárfestar og greiningarfyrirtæki hafa óttast lengi að flug markaðarins muni enda bráðlega en þrátt fyrir verðbólgu og vaxtahækkanir hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 17% á árinu.
Fjárfestar hafa meðal annars verið að horfa á uppgjör svæðisbundinna banka þar sem ljóst er að virði innlána hefur lækkað verulega, hvernig sem það er bókfært.
Þá er hagnaður fyrirtækja sem mynda S&P500 ekki í samræmi við gengishækkun á árinu og umframávöxtun hlutabréfa hefur ekki verið lægri í 20 ár ef horft er á skuldabréfamarkaðinn.
Dow Jones og S&P 500 vísitölurnar féllu mikið í gær en náðu sér fyrir lokun markaða og enduðu báðar um 0,5% lægri en á mánudeginum. Nasdaq vísitalan lækkaði um 0,8%.
Lyfjafyrirtækið Eli Lilly átti stóran þátt í að halda S&P 500 á flugi en lyfjafyrirtækið hækkaði um 15% á markaði í gær eftir öflugt árshlutauppgjör og sölulegar sölur á sykursýkislyfinu Mounjaro.
Moodys er nú að vinna í því að endurskoða lánshæfismat hjá sex stærri bönkum en matsfyrirtækið hefur ákveðið að einblína á bankakerfið í Bandaríkjunum sem gæti verið veikara en margir telja.
Vaxtahækkanir og óróleiki á markaði olli áhlaupi á að minnsta kosti tvo banka í vor en ákvörðun Moodys að lækka lánshæfismat hjá tugum lánastofnanna sýnir að það eru enn veikleikamerki á markaði.
Fjárfestar hafa óttast síðastliðna mánuði að markaðurinn muni fara aftur niður eftir sögulegt flug í byrjun árs og gætu lækkanir síðustu daga verið að byrjunin.