Bandaríski milljarðamæringurinn Ken Griffin, stofnandi vogunarsjóðsins Citadel, er í viðræðum um að bætast við í hóp fjárfesta sem ætlar að kaupa breska dagblaðið Telegraph.
Sir Paul Marshall, meðeigandi GB News sjónvarpstöðvarinnar í Bretlandi, fer fyrir hópnum.
Marshall er stofnandi vogunarsjóðsins Marshall Wace en fjölmiðlafyrirtæki hans UnHerd Media Group mun leggja fram kauptilboð fyrir hönd hópsins.
Goldman Sachs sér um uppboðið
Telegraph verður selt á uppboði ásamt sögufræga tímaritinu Spectator en uppboðið hefst á næstu vikum.
Lloyds banki tók yfir fjölmiðlasamstæðuna eftir að eigendur þeirra, Barclay-fjölskyldan, náði ekki að komast að samkomulagi um endurskipulagningu á 1 milljarða punda skuld. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs sér um uppboðið.
Vogunarsjóðurinn Citidel er einn arðbærasti sjóður heims en eignir sjóðsins nema um 62 milljörðum bandaríkjadala sem samsvarar rúmlega 8,5 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Persónulegur auður Griffin er metinn á 35 milljarða Bandaríkjadali og er hann 38 ríkasti maður heims samkvæmt Forbes.