Sjóður í stýringu hjá bandaríska fjárfestingarfélaginu LongRange keypti á föstudaginn um 116,5 milljónir hluta eða um 20,1% eignarhlut í matvælafyrirtækinu Bakkavör Group. Miðað við dagslokagengi Bakkavarar á föstudaginn má ætla að kaupverðið hafi numið 99 milljónum punda eða um 17 milljörðum króna.
Seljandinn er félag tengt bandaríska vogunarsjóðinum Baupost Group sem seldi allan eignarhlut sinn í Bakkvör. Í kauphallartilkynningu kemur fram að með sölunni muni hluthafasamkomulag Baupost við Bakkavör, sem hófst í nóvember 2017, ljúka og samhliða því mun Patrick Cook, fulltrúi Baupost í stjórninni, stíga til hliðar.
Þá hefur Bakkavör gert hluthafasamkomulag við LongRange sem felur m.a. í sér að Robert Berlin tekur sæti í stjórn Bakkavarar sem fulltrúi bandaríska fjárfestingarfélagsins. Berlin sat áður í stjórn Bakkavarar á árunum 2016-2018.
LongRange, sem var stofnað árið 2019, er með um 1,7 milljarða dala í stýringu. Bandaríska fjárfestingarfélagið segist horfa til langs tíma við fjárfestingarákvarðanir og að fjármögnun þess megi að stórum hluta rekja til stofnanafjárfesta. Stærstu fjárfestingar LongRange til þessa eru í bandarísku félögunum Batesville, tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þjóðaröryggismálum, og Batesville, sem sérhæfir sig í útfararþjónustu, m.a. í framleiðslu líkkistna.
Bakkavör er í 50,2% eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, sem stofnuðu Bakkavör árið 1986. Eignarhlutur bræðranna er í dag um 256 milljónir punda að markaðsvirði eða sem nemur um 44,6 milljörðum króna.
Hlutabréfaverð Bakkavarar, sem var skráð á markað í Bretlandi árið 2017, hefur hækkað um 3,5% frá opnun kauphallarinnar í London í morgun. Gengi hlutabréfa félagsins stendur í 88 pensum á hlut þegar fréttin er skrifuð en til samanburðar stóð það í 81 pensi í árslok 2023. Hlutabréf félagsins lækkuðu um tæplega þriðjung í fyrra.