Hluta­bréf í stærstu bönkum Bret­lands féllu skarpt í morgun en fjár­festar óttast að ríkis­stjórnin ætli að hækka skatta á banka­geirann í haust til að mæta fjár­laga­halla sem er talinn nema að minnsta kosti 20 milljörðum punda.

Í frétt Financial Times segir að bæði sér­fræðingar og banka­stjórar telji lík­legt að fjár­málaráðherra Bret­lands muni í haust kynna annaðhvort hærri álag á hagnað eða nýjan sér­stakan banka­skatt.

Hluta­bréf í NatWest féllu um 5,3% í við­skiptum í London í morgun, Lloyds Banking Group lækkaði um 5,2% og Barcla­ys tapaði 3,8%. Þessi þrjú fjár­mála­fyrir­tæki leiddu þar með lækkanir í FTSE 100-vísitölunni.

Lækkunin hófst eftir að hug­veitan IPPR lagði til nýjan skatt á banka­geirann í skýrslu sinni og að Financial Times greindi frá málinu í morgun.

„Fjár­málaráðherrann hefur hingað til talað um að bankar séu lykill að hag­vexti, en þrýstingurinn er mikill á að finna tekjur og bankar eru pólitískt þægi­legt skot­mark,“ sagði Benja­min Toms, greiningaraðili hjá RBC.

Í fréttinni er haft eftir hátt­settum bankamönnum að slík skatta­hækkun gæti skaðað mark­mið ríkis­stjórnarinnar um hag­vöxt, en þeir viður­kenna jafn­framt að pólitískt sé þetta ein­falt mál fyrir stjórn­völd.

Angela Rayner, vara­forsætis­ráðherra og þing­maður Verka­manna­flokksins, lagði í vor til að hækka fyrir­tækja­skatt bankanna úr 28% í 30%.

Aðrir þing­menn flokksins hafa lýst yfir stuðningi við hug­myndir um aukna skatt­lagningu á banka­geirann til að sýna að „sárs­aukinn“ verði jafnt borinn af öllum.

Fram­kvæmda­stjórar stærstu bankanna hafa ný­lega varað við aukinni skatt­byrði.

Charli­e Nunn, for­stjóri Lloyds, sagði eftir birtingu upp­gjörs bankans að auknir skattar „væru ekki í takt við stefnu stjórn­valda um að örva hag­vöxt“

Paul Thwaite hjá NatWest sagði að „sterk hag­kerfi þurfi sterka banka“.

CS Venka­ta­kris­hnan, for­stjóri Barcla­ys, minnti á að fjár­mála­fyrir­tæki væru nú þegar „meðal stærstu skatt­greiðenda í Bret­landi“.

Fram kemur að skatta­hækkanir myndu ráðast af því hversu stór fjár­laga­hallinn verður sam­kvæmt væntan­legum spám Fjár­laga­eftir­litsins (OBR). Enn ríkir mikil óvissa um þær tölur.

Ríkis­stjórnin vill forðast að kæfa hag­vöxt

Rachel Ree­ves fjár­málaráðherra Bret­lands hefur sagt að hún vilji forðast að skattar á „fram­leiðandi hluta efna­hagsins“ verði of þungir.

Í til­kynningu sagði fjár­málaráðu­neytið í gær að megin­mark­miðið væri að styrkja hag­kerfið með hag­vexti fremur en sí­fellt hærri sköttum.

Samtök fjár­málaþjónustu í Bret­landi, UK Finance, segja hins vegar að frekari skatt­lagning myndi „gera Bret­land ókeppnis­hæfara á alþjóða­vett­vangi og ganga gegn stefnu stjórn­valda um að laða að fjár­festingu í landinu“.