Hlutabréfaverð Íslandsbanka leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi bankans hækkaði um 3,5% í 545 milljón króna viðskiptum.
Á sama tíma hækkaði gengi Arion banka um rúm 2% í 2,2 milljarða króna veltu en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir helgi hefur stjórn síðarnefnda bankans óskað eftir samrunaviðræðum við þann fyrrnefnda.
Dagslokagengi Íslandsbanka var 131 króna og hefur ekki verið hærra síðan í september 2022 þegar gengi bankans lokaði í 135 krónum. Gengi bankans hefur nú hækkað um 10% síðastliðinn mánuð og 26% síðastliðið ár.
Dagslokagengi Arion banka var 175 krónur og hefur gengi bankans nú hækkað um 4,5% síðastliðið mánuð og 21% síðastliðið ár.
Hlutabréfaverð Kviku banka hækkaði um hálft prósent í um 732 milljón króna viðskiptum og var því heildarvelta með bréf bankanna þriggja í Kauphöllinni um 68,2% af heildarveltu dagsins sem var 5,1 milljarður.
Hlutabréfaverð Play leiddi lækkanir á aðalmarkaði er gengið fór niður um tæp 4% í örviðskiptum. Flugfélagið birtir ársuppgjör eftir lokun markaða í dag.
Gengi Sýnar hélt einnig áfram að lækka í viðskiptum dagsins en gengið hefur nú lækkað um 30% síðastliðinn mánuð. Dagslokagengi Sýnar var 21,6 krónur og hefur aldrei verið lægra.
Von er á ársuppgjöri frá Sýn á fimmtudaginn.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,39% í viðskiptum dagsins en úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,76% það sem af er ári.