Hluta­bréfa­verð Kviku banka leiddi hækkanir í Kaup­höllinni í dag er gengi bankans fór upp um tæp 7% í 691 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Kviku var 14,48 krónur á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í byrjun apríl.

Gengi Arion banka hækkaði um rúm 4% í 794 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Arion banka var 164 krónur á hlut eftir um 6% hækkun síðastliðinn mánuð. Gengi bankans hefur ekki verið hærra síðan í byrjun mars.

Tölu­verð sveifla var á gengi Ís­lands­banka yfir daginn er hluta­bréfa­verð bankans opnaði í 111,5 krónum á hlut en fór hæst í 117 krónur á hlut um tvö­leytið.

Þegar hæst lét var tæp­lega 10% frávik á markaðs­gengi bankans og út­boðs­gengi í til­boðs­bók A í út­boði ríkisins.

Gengið féll þó þegar leið á daginn og lokaði í 112,5 krónum. Sam­svarar það um 5,6% fráviki frá út­boðs­gengi og 2% hærra en dagsloka­gengið í gær.

Saman­lögð velta með banka­bréf nam rúmum 1,8 milljörðum króna.

Al­mennt hluta­fjárút­boð Ís­lands­banka, þar sem ríkið hyggst selja að lág­marki 20% hlut í bankanum, hófst í gær­morgun.

Fjár­málaráðu­neytið greindi frá því í gærkvöldi að sam­eigin­legir um­sjónaraðilar hafi mót­tekið pantanir um­fram grunn­magn, eða sem nær til 20% hluta af út­standandi hluta­fé Ís­lands­banka.

Grunn­magn út­boðsins nær til allt að 376.094.154 hluta í Íslands­banka hf, eða 20% af heildar­hluta­fé bankans. Miðað við 106,56 króna út­boðs­gengið í til­boðs­bók A má ætla að sölu­and­virði ríkisins verði a.m.k. 40 milljarðar króna ef full áskrift fæst.

Hluta­bréfa­verð Skaga, móðurfélags Vís og Fossa, hækkaði um rúm 3% í lítilli veltu. Dagsloka­gengi félagsins var 19,6 krónur á hlut.

Hluta­bréfa­verð Amaroq lækkaði um tæp 4% í við­skiptum dagsins en félagið birti árs­hluta­upp­gjör fyrir opnun markaða í morgun. Dagsloka­gengi Amaroq var 138 krónur á hlut.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 1,33%. Vísi­talan lokaði í 2.610,99 stigum sem er 5,7% hærra en fyrir mánuði síðan.