Hlutabréfaverð Kviku banka leiddi hækkanir í Kauphöllinni í dag er gengi bankans fór upp um tæp 7% í 691 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Kviku var 14,48 krónur á hlut og hefur ekki verið hærra síðan í byrjun apríl.
Gengi Arion banka hækkaði um rúm 4% í 794 milljón króna viðskiptum. Dagslokagengi Arion banka var 164 krónur á hlut eftir um 6% hækkun síðastliðinn mánuð. Gengi bankans hefur ekki verið hærra síðan í byrjun mars.
Töluverð sveifla var á gengi Íslandsbanka yfir daginn er hlutabréfaverð bankans opnaði í 111,5 krónum á hlut en fór hæst í 117 krónur á hlut um tvöleytið.
Þegar hæst lét var tæplega 10% frávik á markaðsgengi bankans og útboðsgengi í tilboðsbók A í útboði ríkisins.
Gengið féll þó þegar leið á daginn og lokaði í 112,5 krónum. Samsvarar það um 5,6% fráviki frá útboðsgengi og 2% hærra en dagslokagengið í gær.
Samanlögð velta með bankabréf nam rúmum 1,8 milljörðum króna.
Almennt hlutafjárútboð Íslandsbanka, þar sem ríkið hyggst selja að lágmarki 20% hlut í bankanum, hófst í gærmorgun.
Fjármálaráðuneytið greindi frá því í gærkvöldi að sameiginlegir umsjónaraðilar hafi móttekið pantanir umfram grunnmagn, eða sem nær til 20% hluta af útstandandi hlutafé Íslandsbanka.
Grunnmagn útboðsins nær til allt að 376.094.154 hluta í Íslandsbanka hf, eða 20% af heildarhlutafé bankans. Miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A má ætla að söluandvirði ríkisins verði a.m.k. 40 milljarðar króna ef full áskrift fæst.
Hlutabréfaverð Skaga, móðurfélags Vís og Fossa, hækkaði um rúm 3% í lítilli veltu. Dagslokagengi félagsins var 19,6 krónur á hlut.
Hlutabréfaverð Amaroq lækkaði um tæp 4% í viðskiptum dagsins en félagið birti árshlutauppgjör fyrir opnun markaða í morgun. Dagslokagengi Amaroq var 138 krónur á hlut.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 1,33%. Vísitalan lokaði í 2.610,99 stigum sem er 5,7% hærra en fyrir mánuði síðan.