Framboð lánsfjár til heimila og fyrirtækja hefur verið stöðugt eða aukist lítillega á undanförnum þremur mánuðum samkvæmt nýrri útlánakönnun Seðlabanka Íslands.

Könnunin, sem fram fór 1.–14. apríl meðal viðskiptabankanna, sýnir að bankarnir gera ráð fyrir frekari aukningu á framboði húsnæðislána og fyrirtækjalána næstu sex mánuði.

Framboð húsnæðislána til heimila var óbreytt undanfarið en gert er ráð fyrir örlítilli aukningu framundan.

Eftirspurn eftir íbúðalánum dróst lítillega saman á síðustu þremur mánuðum en bankarnir vænta vaxandi eftirspurnar á næstu sex mánuðum. Þá gera bankarnir ráð fyrir aukinni samkeppni á lánamarkaði fyrir heimili.

Á sama tíma greina bankarnir frá óbreyttum útlánareglum gagnvart heimilum og fyrirtækjum, en búist er við aukinni samkeppni einnig í fyrirtækjaútlánum, meðal annars frá öðrum lánveitendum og vegna markaðsfjármögnunar.

Vaxtalækkun á óverðtryggðum útlánum til heimila og fyrirtækja hefur átt sér stað síðustu þrjá mánuði og er búist við áframhaldandi lækkun. Lækkun meginvaxta Seðlabankans og minni fjármögnunarkostnaður bankanna eru helstu áhrifaþættir. Hins vegar vegur aukið regluverk að einhverju leyti á móti þessari þróun og bankarnir gera ekki ráð fyrir að vaxtaálagið lækki á næstunni.

Vextir á útlánum í erlendum gjaldmiðlum hafa verið óbreyttir síðustu þrjá mánuði og gera bankarnir ráð fyrir að það haldist áfram næsta hálfa árið. Bankarnir búast áfram við aukinni eftirspurn stærri fyrirtækja eftir lánum í erlendum gjaldmiðlum en annars óbreyttri lánsfjáreftirspurn fyrirtækja á næstu sex mánuðum.