Úrvalsvísitalan hækkaði um eitt prósent í 7,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. 22 af 28 félögum aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins.
Sjö félög hækkuðu um tvö prósent eða meira. Kvika banki leiddi hækkanir en gengi hlutabréfa bankans hækkaði um 4,6% í 1,8 milljarða króna veltu og stendur nú í 21,5 krónum á hlut. Hlutabréf Íslandsbanka hækkuðu einnig um 3,2% og Arion banka um 2,6%.
Þá réttu hlutabréf útgerðarfélaganna aðeins við sér eftir að hafa lækkað í gær við fregnir um áform stjórnvalda um tvöföldun veiðigjalda. Hlutabréfaverð Ísfélagsins hækkaði um 3,1% í 30 milljóna viðskiptum, Síldarvinnslunnar um 2,4% í 235 milljóna veltu og Brims um 0,6% í 160 milljóna veltu.
Þess má geta að Alvotech mun birta ársuppgjör fyrir árið 2024 eftir lokun markaða vestanhafs í kvöld. Hlutabréfaverð líftæknifyrirtækisins hækkaði um 0,2% í 82 milljóna veltu í dag og stendur í 1.550 krónum á hlut.