Bankarnir sem fjármögnuðu 44 milljarða dala kaup Elon Musk á samfélagsmiðlinum Twitter, nú þekkt sem X, eru enn að basla við að losa skuldirnar af efnahagsreikningi sínum.
Sjö bankar, meðal annars Morgan Stanley, Bank of America og Barclays, lánuðu Musk í kringum 13 milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar rúmlega 1800 milljörðum króna, til að kaupa samfélagsmiðilinn fyrir nákvæmlega ári síðan á föstudaginn.
Í venjulegu árferði væru bankarnir búnir að selja skuldirnar til fjárfestingafyrirtækja en áhugi fjárfesta á skuldum Twitter virðist mjög lítill eftir að Musk tók yfir fyrirtækið.
Bankarnir byrjaðir að reyna að selja
Samkvæmt The Wall Street Journal munu bankarnir tapa um 15% eða tveimur milljörðum dala þegar þeim tekst loks að selja skuldirnar og þurfa því sumir bankar því að bókfæra hundruð milljóna dala tap vegna lánveitingarinnar.
Bankarnir hafa nú verið með skuldirnar á efnahagsreikningi sínum í næstum ár en það þykir afar langur tími í Bandaríkjunum.
Samkvæmt heimildum The Wall Street Journal eru bankarnir sjö, Morgan Stanley, Bank of America, Barclays, MUFG, BNP Paribas, Société Générale og Mizuho, fyrst núna að byrja þreifa fyrir sér með skuldabréfaútgáfu á skuldum Twitter.
Matsfyrirtækin vestanhafs eiga hins vegar eftir að leggja mat á lánshæfið en ef skuldabréfin fá lélega lánshæfiseinkunn gæti verið erfitt fyrir bankana að losa sig við skuldirnar án þess að taka sig enn meiri tap.
Skuldabréf í ruslflokki
Óútreiknanlegur stjórnandastíll Musk hefur veikt greiðslugetu fyrirtækisins og er óttast að skuldirnar verði metnar sem ruslbréf en Musk sagði sjálfur í fyrra að samfélagsmiðilinn væri á barmi gjaldþrots.
Skuldabréf Twitter voru metin sem ruslbréf fyrir yfirtöku Musk en fyrirtækið var tiltölulega minna skuldsett þá.
Þar sem fyrirtækið er ekki lengur á markaði er lítið vitað um stöðuna á núverandi efnahagsreikningi félagsins en Musk hefur greint frá því að auglýsingatekjur samfélagsmiðilsins hafa dregist verulega saman.
Eftir kaupin réðst Musk í mikinn niðurskurð hjá fyrirtækinu en samkvæmt WSJ var það meðal annars gert svo Twitter gæti staðið undir himinháum vaxtagreiðslum.
Skuldirnar skiptast í 6,5 milljarða dala langtímalán, 6 milljarðar skiptast jafnt í veðtryggð og óveðtryggð skuldabréf ásamt 500 milljón dala lánalínu.
Samkvæmt WSJ hafa bandarískir bankar ekki verið með skuld af þessari stærðargráðu jafn lengi á bókum sínum síðan 2007-2008 þegar fjárfestar misstu trú á fjármálamörkuðum eftir efnahagshrunið.