Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja nam 17,9 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 19,7 milljarða á öðrum fjórðungi 2021.
Af bönkunum þremur skilaði Arion banki mesta hagnaðinum eða um 9,7 milljörðum króna, en þar inni er 5,6 milljarða söluhagnaður af Valitor sem kom fram að fullu á fjórðungnum. Íslandsbanki hagnaðist um 5,9 milljarða á fjórðungnum en Landsbankinn 2,3 milljarða.
Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var 21,8% hjá Arion, 11,7% hjá Íslandsbanka en 3,5% hjá Landsbankanum. Í uppgjörtilkynningu sagði Landsbankinn að ástæðan fyrir því að afkoman væri undir 10% arðsemismarkmiði væri einkum lækkun á gangvirði hlutabréfaeignar bankans. Landsbankinn á um 3,5% óbeinan hlut í Marel en gengi bréfa félagsins hefur lækkað um meira en 30% í ár.
Hreinar þóknanatekjur á fjórðungnum jukust um en 27% frá sama tíma í fyrra hjá Arion, 20% hjá Landsbankanum og 18% hjá Íslandsbanka.
Hreinar vaxtatekjur Arion og Íslandsbanka á fjórðungnum jukust um 22% frá sama tímabili í fyrra en hjá Landsbankanum jukust hreinar vaxtatekjur um 8%.
Þá var kostnaðarhlutfallið lægst hjá Íslandsbanka á fjórðungnum eða um 42,7% en hlutfallið lækkaði um 7,2 prósentur frá fyrra ári. Kostnaðarhlutfallið var 50,1% hjá Arion á öðrum fjórðungi en 49,3% hjá Landsbankanum en hlutfallið jókst um meira en sjö prósentustig á milli ára hjá bönkunum tveimur.