Danska fjármálasamsteypan Nykredit hefur tryggt sér yfirgnæfandi hlut í Spar Nord Bank og hyggst í kjölfarið afskrá félagið úr Kauphöll Kaupmannahafnar. Með viðskiptunum verður Nykredit þriðji stærsti banki Danmerkur, mælt eftir stærð efnahagsreiknings.
Samkvæmt bráðabirgðatölum, sem Nykredit birti að loknum tilboðsfresti um miðnætti, mun félagið fara með 96,54% hlutafjár í Spar Nord. Danski viðskiptamiðilinn Børsen greinir frá.
Nykredit átti fyrir 32,8% hlut, en stærstur hluti eftirstandandi hluthafa samþykkti yfirtökutilboðið sem lagt var fram í desember síðastliðnum.
Endanleg niðurstaða verður birt á föstudaginn og ráðgert er að lokauppgjör fari fram miðvikudaginn 28. maí.
Með því að ná yfir 90% hlutafjár hefur Nykredit, samkvæmt dönskum lögum, öðlast rétt til að krefjast skyldubundinnar innlausnar á hlutum minnihlutafjárfesta.
Í kjölfarið hyggst félagið afskrá Spar Nord úr Kauphöllinni en það var yfirlýst markmið frá upphafi samrunaviðræðna.
Ekki hefur verið tilgreint hvenær afskráningin fer formlega fram.
Spar Nord hefur verið mikilvægur samstarfsaðili Nykredit í veitingu fasteignalána og hefur forstjóri Spar Nord, Lasse Nyby, setið í stjórn Nykredit frá árinu 2007.
Áformin gera ráð fyrir að starfsemi félaganna verði sameinuð undir einni rekstrareiningu með tvö sjálfstæð vörumerki, þar sem staðbundinn markaðsstyrkur Spar Nord helst óbreyttur samhliða stærð og umfangi Nykredit á landsvísu.
Danska samkeppniseftirlitið (KFST) veitti 20. maí samþykki sitt fyrir kaupunum án skilyrða, eftir að hafa metið samrunann með tilliti til samkeppnisstöðu á fjármálamarkaði. Fyrir lá þegar samþykki frá danska fjármálaeftirlitinu (Finanstilsynet), sem var veitt í febrúar.
Í tilboðslýsingu Nykredit kom fram að tilboðsgengi á hlut myndi hækka um 0,50 danskar krónur fyrir hvern mánuð frá 1. maí þar til kaupum væri lokið.
Upphaflegt kaupverð var 210 DKK á hlut, en er nú komið í 210,50 DKK. Það hækkar heildarvirði Spar Nord um rúmlega 60 milljónir danskra króna, en þar sem Nykredit átti þegar umtalsverðan hlut greiðir félagið raunverulega um 40 milljónir DKK til viðbótar.
Að yfirtöku lokinni mun Nykredit skipa þriðja sæti yfir stærstu banka Danmerkur, á eftir Danske Bank og Nordea.
Samruninn styrkir samkeppnisstöðu félagsins á smásölumarkaði fjármála og eykur hagræði í miðlægum rekstri og dreifikerfum, samkvæmt Børsen.