Danska fjár­mála­sam­steypan Nykredit hefur tryggt sér yfir­gnæfandi hlut í Spar Nord Bank og hyggst í kjölfarið af­skrá félagið úr Kaup­höll Kaup­manna­hafnar. Með við­skiptunum verður Nykredit þriðji stærsti banki Dan­merkur, mælt eftir stærð efna­hags­reiknings.

Sam­kvæmt bráða­birgðatölum, sem Nykredit birti að loknum til­boðs­fresti um miðnætti, mun félagið fara með 96,54% hluta­fjár í Spar Nord. Danski við­skipta­miðilinn Børsen greinir frá.

Nykredit átti fyrir 32,8% hlut, en stærstur hluti eftir­standandi hlut­hafa samþykkti yfir­töku­til­boðið sem lagt var fram í desember síðastliðnum.

Endan­leg niður­staða verður birt á föstu­daginn og ráð­gert er að loka­upp­gjör fari fram mið­viku­daginn 28. maí.

Með því að ná yfir 90% hluta­fjár hefur Nykredit, sam­kvæmt dönskum lögum, öðlast rétt til að krefjast skyldu­bundinnar inn­lausnar á hlutum minni­hluta­fjár­festa.

Í kjölfarið hyggst félagið af­skrá Spar Nord úr Kaup­höllinni en það var yfir­lýst mark­mið frá upp­hafi sam­runa­viðræðna.

Ekki hefur verið til­greint hvenær af­skráningin fer form­lega fram.

Spar Nord hefur verið mikilvægur sam­starfsaðili Nykredit í veitingu fast­eigna­lána og hefur for­stjóri Spar Nord, Lasse Nyby, setið í stjórn Nykredit frá árinu 2007.

Áformin gera ráð fyrir að starf­semi félaganna verði sam­einuð undir einni rekstrar­einingu með tvö sjálf­stæð vöru­merki, þar sem staðbundinn markaðs­styrkur Spar Nord helst óbreyttur sam­hliða stærð og um­fangi Nykredit á landsvísu.

Danska sam­keppnis­eftir­litið (KFST) veitti 20. maí samþykki sitt fyrir kaupunum án skil­yrða, eftir að hafa metið sam­runann með til­liti til sam­keppnis­stöðu á fjár­mála­markaði. Fyrir lá þegar samþykki frá danska fjár­mála­eftir­litinu (Finanstil­synet), sem var veitt í febrúar.

Í til­boðslýsingu Nykredit kom fram að til­boðs­gengi á hlut myndi hækka um 0,50 danskar krónur fyrir hvern mánuð frá 1. maí þar til kaupum væri lokið.

Upp­haf­legt kaup­verð var 210 DKK á hlut, en er nú komið í 210,50 DKK. Það hækkar heildar­virði Spar Nord um rúm­lega 60 milljónir danskra króna, en þar sem Nykredit átti þegar um­tals­verðan hlut greiðir félagið raun­veru­lega um 40 milljónir DKK til viðbótar.

Að yfir­töku lokinni mun Nykredit skipa þriðja sæti yfir stærstu banka Dan­merkur, á eftir Danske Bank og Nor­dea.

Sam­runinn styrkir sam­keppnis­stöðu félagsins á smásölu­markaði fjár­mála og eykur hag­ræði í miðlægum rekstri og dreifi­kerfum, samkvæmt Børsen.