Dómstóll í kínversku hafnarborginni Tianjin hefur dæmt Lai Xiaomin, fyrrum stjórnarformann fjármálafyrirtækisins China Huarong Asset Management, til dauða fyrir mútuþægni.
Lai var fundinn sekur um að þiggja eða sækjast eftir mútum sem samtals nema tæplega 1,8 milljörðum jena, eða sem samsvarar um 2,2 milljörðum íslenskra króna, að því er fram kemur í frétt CNN . Í tilkynningu um dauðadóminn frá kínverskum stjórnvöldum er Lai sagður "ólöghlýðinn og gríðarlega gráðugur". Lai mun geta áfrýjað dómnum áður en til aftöku kemur.
Dómstólar í Kína státa af 99% sakfellingarhlutfalli að sögn lögspekinga og eru spillingarákærur af þessum toga gjarnan notaðar gegn innanbúðarmönnum kommúnistaflokksins sem falla í ónáð forystunnar. Sökin sem Lai er gefin er þó fordæmalaus, en enginn hefur verið ákærður fyrir mútuþægni að viðlíka fjárhæð frá stofnun alþýðulýðveldisins Kína.
Dómurinn sendi skýr skilaboð
Lai er aðeins einn fjölmargra opinberra framámanna sem hlotið hefur þungan dóm eftir að hafa fallið í ónáð kommúnistaflokksins frá því að stjórnvöld hófu fyrst að herða tök sín á fjármálageiranum þar í landi. Dauðadómurinn þykir þó óvæntur, en Lai er hæst setti opinberi starfsmaðurinn sem hlotið hefur dauðadóm fyrir efnahagsglæp frá því núverandi forseti alþýðulýðveldisins, Xi Jinping, komst til valda árið 2012.
Fjármálafyrirtækið sem Lai leiddi, China Huarong Asset Management, starfar á sviði eignastýringar, en kemur einnig að lánveitingum og öðrum fjárferstingum. Huarong hefur gefið út að þeir styðji ákvörðun dómstólsins og áréttað að fjármálafyrirtækið hyggðist ganga í takt með forystu kommúnistaflokksins.
Prófessor við kínverska háskólann í Hong Kong telur dauðadómnum hugsanlega ætlað að senda skýr skilaboð til allra, ekki síst einkageirans. Bendir hann í því samhengi á þróun mála hjá Alibaba og Jack Ma.