Bankasýsla ríkisins hefur birt glærukynninguna sem hún kynnti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær. Bankasýslan fjallar þar um skýrslu Ríkisendurskoðunar Bretlands (NAO) á sölu á 6,0% hlut í Lloyds Banking Group árið 2013 og setur hana í samhengi við skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars sl.
„Bankasýsla ríkisins veit ekki um aðra skýrslu af hálfu ríkisendurskoðunar í Evrópu um sölu á hlut í bönkum með tilboðsfyrirkomulagi eftir bankakreppuna,“ segir í kynningunni. Þá hafi umgjörð sölunnar verið með svipuðum hætti og framkvæmdin á forræði næstkomandi systurstofnunar Bankasýslu ríkisins (e. UK Financial Investments) fyrir hönd fjármálaráðherra.
Bankasýslan segir að Ríkisendurskoðun hafi verið bent á tilvist þessarar skýrslu í maí á þessu ári, hálfu ári áður en skýrslan um Íslandsbankasöluna var birt.
Skauti viljandi fram hjá rannsóknarspurningum NAO
Í skýrslu NAO eru lagðar fram þrjár megin rannsóknarspurningar, með það í huga hvort skattgreiðendur hafi notið góðs af sölunni á Lloyds.
- Var mest viðeigandi söluaðferð valin?
- Var tímasetning og umgjörð sölunnar rétt?
- Var verðið sanngjarnt?
„Til samanburðar virðist Ríkisendurskoðandi viljandi skauta fram hjá þeim rannsóknarspurningum sem NAO þótti mestu máli skipta við úttekt á sölunni á hlutum í Lloyds með tilboðsfyrirkomulagi,“ segir Bankasýslan.
Hún bendir á að Ríkisendurskoðun hafi tekið sérstaklega fram í Íslandsbankaskýrslunni að ekki væri tekin afstaða til þess hvort réttmætt hafi verið að selja hluti ríkisins í bankanum á umræddum tímapunkti.
Þá hafi Ríkisendurskoðun heldur ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt hafi verið að notast við aðrar söluaðferðir en tilboðsfyrirkomulag.
„Enga vísbendingu er að finna í skýrslunni að Ríkisendurskoðun hafi nálgast NAO með það að markmiði að nýta þekkingu og reynslu þeirrar stofnunar. Engar upplýsingar er heldur að finna í skýrslunni að Ríkisendurskoðun hefði stuðst við alþjóðlega staðla, sem eru þó fyrirliggjandi hjá [Alþjóðasambandi ríkisendurskoðenda],“ segir Bankasýslan.
Ríkisendurskoðun og NAO eru bæði meðlimir í evrópska svæðasambandi Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI).
„Þá vekur athygli að Ríkisendurskoðun sneiðir algjörlega fram hjá því í skýrslu sinni að fjalla um söluna í tengslum við markmið fjárlaga um að afla 75 ma.kr. fyrir ríkissjóð með sölu á árinu, þrátt fyrir að [með] [lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun „[sé] embættinu falið að hafa eftirlit með fjárhagslegum hagsmunum ríkisins í umboði Alþingis”, eins og fram kemur á bls. 3 í skýrslunni.“
Mikilvægt að gerð verði skýrsla um allt ferlið
Eins og fyrr segir vísar Bankasýslan í skýrslu Ríkisendurskoðunar Bretlands, NAO, um sölu breska ríkisins á 6,0% hlut í Lloyds Banking Group árið 2013. Í júní 2018, þegar hlutir í Lloyds voru að fullu komnir úr eigu breska ríkisins, birti NAO aðra skýrslu með heildstæðri umfjöllun um sölu breska ríkisins á hlutum í bankanum.
„Bankasýsla ríkisins hefur marg oft getið þess að stofnunin telji rétt að líta á sölumeðferð á eignarhlutum í Íslandsbanka sem eitt heildstætt ferli og því talað fyrir mikilvægi þess að svipuð skýrsla yrði birt að lokinni sölu á öllum hlut ríkisins í bankanum.“
Bankasýslan segir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra virðist hafa taka undir þessi sjónarmið í greinargerð sinni frá 10. febrúar síðastliðnum.