Stjórnvöld í Írak bönnuðu formlega alla sölu og dreifingu á áfengi í veiðifélögum og hótelum á mánudaginn en þetta voru meðal síðustu staða í landinu sem höfðu leyfi til að bjóða upp á áfenga drykki.
Samkvæmt nýjustu lögum geta einstaklingar verið sektaðir um allt að 10 til 25 milljónir íraskra dínara (1 til 2,6 milljónir króna) fyrir að brjóta reglurnar.
Washington Post fer ítarlega í málið en þar segir að áfengi eigi sér langa sögu í Írak. Talið er að bjór hafi til að mynda verið fundinn upp af Súmerum í Mesópótamíu fyrir rúmlega fimm þúsund árum.
Í Írak má einnig finna (mögulega) elstu krá í heimi og var fyrrum einræðisherra Íraks, Saddam Hussein, þekktur fyrir að bjóða gestum upp á Johnnie Walker Black Label sem hann kallaði þjóðardrykk Íraks.
Hussein bannaði síðan neyslu áfengis á tíunda áratugnum við litla kátínu elsta sonar hans sem gagnrýndi ákvörðunina og sagði hana eyðileggja orðspor Bagdad sem afslappaðrar borgar.
Eftir fall Husseins réðust skæruliðar á áfengisverslanir og drápu verslunareigendur og var öllum börum lokað í norðurhluta Írak árið 2014 undir stjórn Íslamska ríkisins. Herskáir skæruliðar möluðu allar áfengisflöskur sem þeir fundu en voru barir síðan opnaðir aftur þegar ISIS var bolað úr landinu.
Lagaleg ádeila og verndun persónufrelsis
Árið 2016 setti íraska þingið bann við sölu, innflutningi og framleiðslu áfengis en lögin voru aldrei samþykkt þar sem þingmenn minntu á skuldbindingu sína við persónulegt frelsi og trúarfrelsi, en um þrjú prósent íbúa í landinu eru ekki múslímar.
Í mars 2023 birtust síðan lögin óvænt í opinbera tímaritinu Al-Waqa‘i Al-Iraqiya (lögbirtingablaði Íraks) og höfðu þar með tekið gildi. Eigendur áfengisverslana efndu til mótmæla í Bagdad og báru sumir skilti sem á stóð: „Bagdad mun ekki verða Kandahar“.
Borgaralegir hópar og frjálslynd samtök í Írak gagnrýndu einnig áfengisbannið og sögðu það stangast á við þau réttindi og frelsi sem kveðið er á um í írösku stjórnarskránni. Kristintrúaðir og Yazidi-þingmenn reyndu án árangurs að áfrýja banninu til alríkisdómstóls.
Verð á áfengi hækkaði gríðarlega og smám saman neyddust verslanir til að hætta starfsemi. Öll áfengisverslun endaði í lokuðum grúppum á samfélagsmiðlum og var opinber sala aðeins leyfð á hótelum og í samfélagsklúbbum eins og veiðifélögum.
Yonadam Kanna, kristintrúaður stjórnmálamaður og fyrrum þingmaður, segir að lögin muni koma til með að mismuna ferðamönnum, diplómötum og þeim sem eru ekki múslímar. Lögin hafi verið sett af harðlínumönnum þingsins og muni einnig leiða til að fólk missi vinnuna.
Félagsfræðingurinn Mohsen al-Ali tekur í sama streng og segir að skyndileg lokun á vinsælum stöðum og börum gæti leitt til þess að öll áfengissala endi á svörtum markaði í heimahúsum og muni frekar skapa ringulreið frekar en þá reglu sem stjórnvöld höfðu vonast eftir.