Bandarísk yfirvöld hafa nú gengið frá banni við notkun vél- og hugbúnaðar frá kínverskum og rússneskum framleiðendum í nettengdum ökutækjum á vegum landsins. Fráfarandi ríkisstjórn Joe Biden tilkynnir þetta og segir það koma í veg fyrir misnotkun.

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna sagði í dag að frá og með 2030 myndi það banna allan innflutning á kínverskum og rússneskum vélbúnaði og að sjálfvirkur akstursbúnaður frá löndunum tveimur yrði bannaður frá og með 2027.

Þá segir einnig að yfirvöld áformi að banna innflutning frá öllum framleiðendum sem hafa nálæg tengsl við Kína og Rússland, óháð því hvar búnaðurinn er framleiddur.

„Þetta er markviss nálgun til að tryggja að við náum að halda kínverskri og rússneskri tækni frá bandarískum vegum og langt frá aðfangakeðju þjóðarinnar,“ segir Gina Raimondo, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna.