Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir áformaða stöðugleikareglu ríkisstjórnarinnar í færslu á Facebook. Hún veltir fyrir sér hvort fremur eigi að kalla regluna „skattahækkunarreglu“ og telur ljóst að ríkisstjórnin sé að undirbúa skattahækkanir.
Engin útgjaldaregla í raun
Fjármálaráðuneytið greindi frá áformaðri útfærslu á stöðugleikareglunni í síðasta mánuði en gert er ráð fyrir að hún verði útfærð þannig að undirliggjandi útgjöld A1-hluta ríkissjóðs megi vaxa um að hámarki 2,0% að raunvirði á ári. Raunvöxt útgjalda umfram 2,0% þurfi að fjármagna með samsvarandi ráðstöfunum til tekjuöflunar.
Fjármálaráðherra lagði formlega fram frumvarp um stöðugleikaregluna á föstudaginn síðasta.
Áslaug Arna segir ríkisstjórnina bera fyrir sig að hin nýja fjármálaregla eigi að takmarka útgjöld ríkisins. Það sé hins vegar ekki raunin. Reglan sem fjármálaráðherra mæli fyrir taki í raun bara fyrir ófjármögnuð útgjöld. „Það er auðvitað gott og vel, en ekki nóg!“ skrifar Áslaug.
„Svo lengi sem ríkisstjórnin hækkar skatta skv. reglunni, þá getur hún hækkað útgjöld án takmarkana. Því er þetta engin útgjaldaregla – heldur bara afsökun til að leggja á meiri skatta!“
Engar afleiðingar af því að brjóta regluna
Áslaug Arna segir augljóst að ríkisstjórnin sé að undirbúa skattahækkanir þvert á yfirlýsingar. Hún vísar í viðtal við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem Kristrún sagði að taka þurfi meira til í hendinni í ríkisfjármálunum en hún hafi átt von á. Meira sé um ófjármögnuð útgjöld en hún hafi gert ráð fyrir.
„Þá þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um skaðleg áhrif skattahækkana, þar sem sagan kennir okkur að þær geti minnkað tekjur og grafið undan skattstofnum til framtíðar. Þá eru heldur engar afleiðingar af því að brjóta regluna,“ segir Áslaug Arna.
Hún telur einnig að dregið sé úr mikilvægi skuldareglunnar sem kveður á um að að skuldir A1-hluta hins opinbera skuli vera lægri en sem nemur 30% af landsframleiðslu. Áslaug Arna segir að miðað við áform ríkisstjórnarinnar eigi einungis að leggja fram „plan“ um hvernig eigi að ná skuldahámarki á ný þegar skuldir eru umfram hámark en ekki verði kveðið á um skýrt ferli um niðurgreiðslu.
„Treysta þarf algjörlega á að útgjaldaglöð ríkisstjórn forgangsraði fjármunum í niðurgreiðslu skulda til að skapa borð fyrir báru í ríkisfjármálunum.“
Áslaug Arna veltir fyrir sér hvort skattgreiðendur séu tilbúnir að láta enn meira af launum sínum renna í ríkissjóð. Skattar á Íslandi séu þegar með því mesta sem þekkist á byggðu bóli. Hún spyr einnig hvort hagræðingaráform ríkisstjórnarinnar hafi aðeins verið sýndarmennska.
„Þegar upp er staðið, þá bjargar engin ein regla okkur frá útgjaldaglöðum pólitíkusum sem eru alltaf tilbúnir að hækka skatta til að auka ríkisútgjöld. Sem virðist vera reyndin með núverandi ríkisstjórn. Ég mun leggja fram breytingar við frumvarpið.“
Þess má geta að Samtök atvinnulífsins sögðu í hagræðingartillögum til ríkisstjórnarinnar að stöðugleikaregla sé þung í framkvæmd „þar sem ógjörningur er að áætla framleiðsluslaka- eða spennu í hagkerfinu í rauntíma“. Þess í stað lögðu SA til einfalda útgjaldareglu, sem markar þak á vöxt útgjalda hins opinbera.
Í umsögn við frumvarpsdrög um stöðugleikaregluna sögðu SA m.a. að sú regla sem lögð er til virðist fyrst og fremst miða að því að draga úr sveiflumögnun opinberra fjármála, fremur en að halda aftur af vexti útgjalda. Vilji stjórnvöld auka útgjöld um meira en 2,0% að raunvirði á ári sé einungis gerð krafa um samsvarandi tekjuöflun. Samtökin vöruðu við frekari skattheimtu, ekki síst þar sem Ísland sé þegar háskattaríki. Þá sé lykilatriði að tveggja prósenta viðmiðið sé álitið hámark.