Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest, einn stærsti hluthafi JBT Marels, hefur boðað til hlut­hafa­fundar í febrúar þar sem farið verður yfir stöðu félagsins í kjölfar samruna Marels og JBT og kynntar verða til­lögur stjórnar um fram­haldið.

Friðrik Jóhannsson, stjórnarformaður Eyris, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé tímabært að upplýsa um tillögur stjórnar að svo stöddu en þær verði kynntar fyrir hluthöfum á fundinum.

„Staða félagsins er mjög sterk. Eyrir er með yfir 65 milljarða í eigið fé og félagið er skuldlaust. Það eru í rauninni bara góðir kostir í boði.“

Eyrir sendi frá sér tilkynningu rétt fyrir hádegi í dag þar sem upplýst var um að félagið hefði gert upp allar skuld­bindingar við lán­veit­endur og sé nú skuld­laust.

Fjárfestingarfélagið, sem var stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut, á í dag 6,6% hlut í JBT Marel Corporation sem ætla má að sé í kringum 62 milljarðar króna að markaðsvirði. Eignarhlutur Eyris í JBT Marel samsvarar um 90% af eignum fjárfestingarfélagsins.

Spurður hvort það komi til greina að greiða út eignarhlut Eyris í JBT Marel til hluthafa, svarar Friðrik að allir kostir verði skoðaðir en á endum sé það hluthafanna að ákveða framhaldið.

Meðal stærstu hluthafa Eyris eru feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson. Þá á Landsbankinn 14,2%, LSR 14,2% hlut og Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) 11,3% hlut.

Stærstu hluthafar Eyris Invest

Hluthafi Hlutur
Sex álnir ehf. 14,1%
Landsbankinn 14,1%
LSR B-deild 11,5%
LIVE 11,2%
12 Fet ehf. 10,5%
Th. Magnússon ehf. 7,2%
Þórður Magnússon 6,8%
Aluata Limited 3,3%
Birta lífeyrissjóður 3,1%
Snæból ehf. 3%
Noruz ehf. 2,9%
LSR A-deild 2,6%
Klondike Group (Malta) Limited 1,7%
TM 1,5%
rir hluthafar (6 talsins) 6,6%