Fjölmiðlar vestanhafs hafa það eftir, Jeff Goldstein, yfirmanni innanlandsdreifingar hjá Warner Brothers, að Barbie muni hafa þénað milljarð dala á heimsvísu eftir helgina. Þá er haft eftir Goldstein að engin kvikmynd í hundrað ára sögu Warner Brothers hafi náð að selja miða jafn hratt og Barbie.

Greta Gerwig, leikstjóri Barbie, bætist þar með í hóp 28 annarra leikstjóra sem einir hafa leikstýrt mynd sem þénað hefur yfir milljarð dala á heimsvísu en Gerwig er fyrsta konan til að ná þessum árangri, að því er segir í frétt New York Times.

Barbie var frumsýnd fyrir rúmum tveimur vikum og hefur trónað á toppinum síðan. Þrátt fyrir verkföll í kvikmyndaheiminum í Bandaríkjunum var helgin með eindæmum góð í bíóhúsum þar í landi. Að því er kemur fram í frétt Deadline var áætluð miðasala í Bandaríkjunum 178 milljónir dala, þar af þénuðu fjórar myndir yfir 25 milljónir dala.

Miðasala á Barbie nam 53 milljónum dala þriðju helgina í sýningu í Bandaríkjunum. Fyrstu helgina nam miðasala 157 milljónum dala.