Þriðja kynslóð Kann-Rasmussen fjölskyldunnar tók við stjórn eignarhaldsfélagsins VKR Holding í gær.
Fjölskyldan er ein sú ríkasta í Danmörku en VKR Holding á meðal annars Velux og Dovista.
Samkvæmt Børsen velti samstæðan 29,5 milljörðum danskra króna í fyrra sem samsvarar um 600 milljörðum íslenskra króna.
Af þeirri veltu voru tekjur af sölu á Velux-gluggum 21,7 milljarðar danskra króna. Hagnaður samstæðunnar var 4,2 milljarðar danskra króna sem samsvara um 85 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu í gær eru synir stofnanda Velux, Villum Kann-Rasmussen, að stíga til hliðar en þeir hafa rekið og átt meirihluta í félagi föður síns um árabil.
Lars Kann-Rasmussen, sem er 85 ára og Hans Kann Rasmussen, sem er 78 ára, hafa sameiginlega farið með ráðandi hlut í VKR Holding en Villum Fonden hefur átt aðra útistandandi hluti.
Barnabörn Villum, þeir Jens og Mads Kann-Rasmussen, tóku við A-hlutum feðra sinna í gluggaveldinu í gær en þeir áttu fyrir hluti í félaginu gegnum Villum sjóðinn.
Jens sem er 51 árs hefur verið stjórnarformaður Villum Fonden í mörg ár á meðan Mads, sem er 55 ára, hefur verið framkvæmdastjóri VKR Holding um árabil.
Villum sjóðurinn er aðaleigandi VKR Holding A/S og á um 90% af B-hlutabréfunum. A-hlutabréfin eru hins vegar aðallega í eigu Kann Rasmussen-fjölskyldunnar. A-hluthafar hafa um 50% atkvæðisréttar á móti sjóðnum.
„Á þessu ári eru 60 ár síðan ég hóf störf hjá Velux sem aðstoðarmaður Velux í Frakklandi. Á þessum 60 árum hefur VKR-hópurinn þróast í stórt alþjóðlegt fyrirtæki með viðskiptaeiningarnar Velux og Dovista. Í dag eru um 17.000 hæfileikaríkir starfsmenn sem selja þakglugga og framhliðarglugga um allan heim. Þess vegna er mér mikil ánægja að sjá að Jens og Mads taka við stjórnun fyrirtækisins og fjölskylduarfleifðin sé tryggð fyrir næstu kynslóð,“ segir Lars Kann-Rasmussen.