Þriðja kyn­slóð Kann-Rasmus­sen fjöl­skyldunnar tók við stjórn eignar­halds­fé­lagsins VKR Holding í gær.

Fjöl­skyldan er ein sú ríkasta í Dan­mörku en VKR Holding á meðal annars Velux og Do­vista.

Sam­kvæmt Børsen velti sam­stæðan 29,5 milljörðum danskra króna í fyrra sem sam­svarar um 600 milljörðum ís­lenskra króna.

Af þeirri veltu voru tekjur af sölu á Velux-gluggum 21,7 milljarðar danskra króna. Hagnaður sam­stæðunnar var 4,2 milljarðar danskra króna sem sam­svara um 85 milljörðum ís­lenskra króna.

Sam­kvæmt frétta­til­kynningu frá fé­laginu í gær eru synir stofnanda Velux, Villum Kann-Rasmus­sen, að stíga til hliðar en þeir hafa rekið og átt meiri­hluta í fé­lagi föður síns um ára­bil.

Lars Kann-Rasmus­sen, sem er 85 ára og Hans Kann Rasmus­sen, sem er 78 ára, hafa sam­eigin­lega farið með ráðandi hlut í VKR Holding en Villum Fonden hefur átt aðra úti­standandi hluti.

Velux- gluggar eru vinsæl vara í Danmörku og á Íslandi.
Velux- gluggar eru vinsæl vara í Danmörku og á Íslandi.

Barna­börn Villum, þeir Jens og Mads Kann-Rasmus­sen, tóku við A-hlutum feðra sinna í glugga­veldinu í gær en þeir áttu fyrir hluti í félaginu gegnum Villum sjóðinn.

Jens sem er 51 árs hefur verið stjórnar­for­maður Villum Fonden í mörg ár á meðan Mads, sem er 55 ára, hefur verið fram­kvæmda­stjóri VKR Holding um ára­bil.

Villum sjóðurinn er aðal­eig­andi VKR Holding A/S og á um 90% af B-hluta­bréfunum. A-hluta­bréfin eru hins vegar aðal­lega í eigu Kann Rasmus­sen-fjöl­skyldunnar. A-hlut­hafar hafa um 50% at­kvæðis­réttar á móti sjóðnum.

„Á þessu ári eru 60 ár síðan ég hóf störf hjá Velux sem að­stoðar­maður Velux í Frakk­landi. Á þessum 60 árum hefur VKR-hópurinn þróast í stórt al­þjóð­legt fyrir­tæki með við­skipta­einingarnar Velux og Do­vista. Í dag eru um 17.000 hæfi­leika­ríkir starfs­menn sem selja þak­glugga og fram­hliðar­glugga um allan heim. Þess vegna er mér mikil á­nægja að sjá að Jens og Mads taka við stjórnun fyrir­tækisins og fjöl­skyldu­arf­leifðin sé tryggð fyrir næstu kyn­slóð,“ segir Lars Kann-Rasmus­sen.