Frá samruna BBA og Fjeldco árið 2019 hefur velta sameinaðs félags aukist um 91% og afkoma þess aukist jafnt og þétt á tímabilinu.

BBA Fjeldco hagnaðist um 428 milljónir króna eftir skatta í fyrra samanborið við 400 milljónir árið áður. Tekjur Lögmannsstofunnar jukust um 7,8% milli ára og námu 1.641 milljón króna.

Stjórn félagsins lagði til að greiddur verði út arður að fjárhæð 430 milljónir króna í ár.

„Árangur félagsins endurspeglar það traust sem íslenskt atvinnulíf hefur sýnt BBA//Fjeldco undanfarin ár og hefur skilað okkur leiðandi stöðu á íslenskum markaði. Við leggjum mikla áherslu á að veita lausnamiðaða og fagmannlega þjónustu á grunni sérþekkingar sem við höfum aflað okkur,“ segir Halldór Karl Halldórsson, eigandi og faglegur framkvæmdastjóri stofunnar (e. managing partner).

Meðal verkefna síðasta árs var samruni JBT og Marel, sem félagið segir að sé meðal stærstu og flóknustu viðskiptum sem framkvæmd hafa verið hér á landi.

Í lok síðasta árs störfuðu 45 starfsmenn hjá félaginu. Ársverk í fyrra voru 38 samanborið við 36 árið áður.

Leggja áherslu á vöxt Elements

Lögmannsstofan segir á sama tíma og hugað var að áframhaldandi stöðugum vexti félagsins hafi verið lögð áhersla á vaxtabrodda félagsins og ber dótturfélagið Elements by BBA//Fjeldco þar hæst.

Elements veitir ráðgjöf á sviði endurnýjanlegrar orku víðs vegar um heim, þ.m.t. til stjórnvalda í ýmsum ríkjum.

„Árið 2025 hefur farið vel af stað hjá BBA//Fjeldco og er reiknað með áframhaldandi vexti á árinu. Félagið hefur aukið umsvif sín í verkefnum á ýmsum sviðum, þ.m.t. tengdum jarðvarma og endurnýtanlegri orku og vex sá málaflokkur hratt, auk þess sem dótturfélög BBA//Fjeldco í London og Frakklandi halda áfram að styðja vel við fjölbreytileg verkefni samstæðunnar.

Þá hefur félagið haldið áfram vinnu sinni við stór verkefni sem af er ári og má þar nefna þátttöku í farsælli sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.“