Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Flow, sem býr til hugleiðsluhugbúnað fyrir bæði sýndarveruleika og snjallsíma, er til umfjöllunar í Click, þætti BBC á sviði nýsköpunar og tækni, sem nær til 350 milljónir áhorfenda á heimsvísu. Hægt er að horfa á innslagið á heimasíðu Flow .

Í umfjöllun BBC er rætt við Tristan Elizabeth Gribbin, stofnanda Flow. Í viðtalinu leggur Tristan áherslu á kosti þess að leiða saman tækni og vellíðan en hugleiðsluæfingar Flow byggja á samspili hvoru tveggja. Aðspurð segir Tristan vera mjög ánægð með þær viðtökur sem Flow hefur fengið bæði hér á landi og erlendis.

„Mörgum kann að þykja tækni og hugleiðsla vera andstæður en í æfingum okkar sýnum við fram á þau jákvæðu áhrif sem það getur haft að sameina þetta tvennt,“ segir Tristan í þættinum.

Sjá einnig: Hugleiðsla með hjálp sýndarveruleika

Í sýndarveruleika Flow geta notendur snúið sér í 360 gráðu hring og skoðað sig um á gossvæðinu í Geldingardölum á meðan þeir eru leiddir í gegnum hugleiðsluæfingu. Hugleiðsluæfingarnar notast við myndefni þar sem íslenskri náttúru og tónlist er tvinnað saman. Notendur geta meðal annars annars valið um að hlusta á tónlist Ólafs Arnalds, GusGus, Sigur Rósar og of Monsters and Men á meðan hugleiðslunni stendur.

Flow var stofnað árið 2016 í Startup Reykjavík og vann Flow Gulleggið, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups árið 2018. Árið 2020 lauk félagið 118 þúsund evra fjármögnun í gegnum fjárfestingarvettvanginn Funderbeam og hefur jafnframt fengið tvo styrki frá Tækniþróunarsjóði upp á samtals 60 milljónir króna.