Stór meirihluti af þeim fyrirtækjum sem tóku þátt í nýlegri könnun Samtaka atvinnulífsins (SA) eru neikvæð í garð innleiðingar jafnlaunavottunar. Einungis 22% segjast telja ávinninginn af ferlinu vera meiri en kostnaðinn.
„Mikillar neikvæðni gætti jafnframt gagnvart ferlinu í opnum svörum atvinnurekenda þar sem yfirgnæfandi meirihluti svarenda veitti ferlinu neikvæða endurgjöf. Þar kom helst fram að ferlið væri kostnaðarsamt, framkvæmdin væri erfið og tímafrek, þjónaði ekki tilgangi miðað við eðli fyrirtækjanna, samræmdist illa framkvæmd kjarasamninga, úttektir væru of tíðar, erfitt væri að umbuna framúrskarandi starfsfólki óháð kyni og að vottunin ætti að vera valkvæð,“ segir í frétt á vef SA.
„Þó voru einhverjir jákvæðir gagnvart ferlinu og töldu staðalinn geta hjálpað fyrirtækjum að auka formfestu í launaákvörðunum.“
Jafnlaunavottun eða -staðfesting: Ávinningur af ferlinu verður meiri en kostnaðurinn
Lög um jafnlaunavottun, sem Viðreisn náði í gegnum þingið í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, tóku gildi 1. janúar 2018.
Beinn kostnaður atvinnulífsins hlaupi á 5-6 milljörðum
Fyrirtækjum með 25-49 starfsmenn er heimilt að undirgangast jafnalunastaðfestingu í stað jafnlaunavottunar. Af þeim sem var heimilt að velja jafnlaunastaðfestingu hjá Jafnréttisstofu, í stað jafnlaunavottunar, kusu 62% staðfestingu í stað vottunar.
Spurt var hver raunkostnaður við ferlið hefði verið hjá fyrirtækjunum.
- Af þeim sem voru að innleiða jafnlaunastaðalinn var raunkostnaður 7,6 milljónir króna að meðaltali.
- Af þeim sem voru að innleiða jafnlaunastaðfestingu var raunkostnaður 2,7 milljónir króna að meðaltali.
- Af þeim sem voru að endurnýja jafnlaunavottunina var raunkostnaður 2,1 milljón að meðaltali
Kostnaðurinn var mismunandi eftir því hvort um var að ræða jafnlaunastaðfestingu, jafnlaunavottun eða endurnýjun vottunar en ekki var skýr fylgni milli stærðar fyrirtækis og kostnaðar. Meðalkostnaðurinn var mestur hjá fyrirtækjum með 50-149 starfsmenn.
„Miðað við þann fjölda fyrirtækja sem þegar hefur hlotið jafnlaunavottun eða -staðfestingu má gera ráð fyrir að beinn kostnaður atvinnulífsins hlaupi þegar á um 5-6 milljörðum króna miðað við eigin mat fyrirtækjanna,“ segir í frétt SA.
Aðgreining á kostnaði við ferlið gefur til kynna að aðkeypt ráðgjöf og þjónusta sérfræðinga standi fyrir stórum hluta kostnaðarins en 45% svarenda höfðu varið einni milljón eða meira í aðkeypta ráðgjöf og þjónustu vegna innleiðingarinnar.
Könnunin fór fram dagana 12. september til 16. október 2024. Alls svöruðu 598 fyrirtæki könnuninni sem gaf 32,1% svarhlutfall.
Samtök atvinnulífsins framkvæmdu í annað sinn könnun meðal félagsmanna sinna um reynslu þeirra af jafnlaunavottun. Könnunin fór fram dagana 12. september til 16. október 2024. Alls svöruðu 598 fyrirtæki könnuninni sem gaf 32,1% svarhlutfall.