Útflutningsverðmæti álvera námu tæpum 300 milljörðum árið 2021 og skiluðu þau metafkomu í fyrra. Þetta er á meðal þess sem fram kemur á ársfundi Samáls í dag, en yfirskrift fundarins er „Græn vegferð í áliðnaði“. Finna má streymi af fundinum, sem hefst klukkan 8:30, hér að neðan.
„Óhætt er að segja að það ári betur en áður í áliðnaði,“ segir Pétur Blöndal framkvæmdastjóri Samáls. „Þetta er ekki í fyrsta skipti og áreiðanlega ekki í síðasta skipti sem áliðnaður kemur sterkur inn þegar á móti blæs í efnahagslífinu. Það segir sína sögu að rekja má fjórðung gjaldeyristekna þjóðarbúsins í fyrra til þriggja álvera. Þá nam innlendur kostnaður álvera 123 milljörðum, sem er aukning um fjórðung eða 30 milljarða frá frá árinu áður.“
Á fundinum ræðir Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls og stjórnarformaður Samáls, stöðu og horfur í áliðnaði, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra flytur ávarp, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar flytur erindi undir yfirskriftinni „Farsæl uppbygging í þágu þjóðar“, Joseph Cherriez frá greiningarfyrirtækinu CRU ræðir markaðshorfur í áliðnaði á óvissutímum og Guðrún Sævarsdóttir dósent við Háskólann í Reykjavík gerir skil ólíkum leiðum sem eru í þróun hjá álverum í átt að kolefnishlutleysi.
Loks er ýtt úr vör sýningunni Lífið í þorpinu, þar sem sagðar eru 22 sögur af starfsfólki álvera með ljósmyndum og viðtölum. Sýningin verður svo á faraldsfæti í sumar, ferðast á milli álvera og ef til vill víðar.