Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, gera grein fyrir yfirlýsingu sem nefndin sendi frá sér í morgun á kynningarfundi sem hefst kl. 9:30.
Fjármálastöðugleikanefnd tilkynnti í morgun að hún hefði ákveðið að lækka gildi kerfisáhættuaukans úr 3% í 2%. Hins vegar ákvað nefndin að hækka eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki úr 2% í 3%.
Nefndin sagði í yfirlýsingu sinni að hátt raunvaxtastig samhliða hægari vexti efnahagsumsvifa gæti skapað áskoranir fyrir fjármálakerfið á næstu misserum. Þá séu einnig viðsjárverðir tímar á alþjóðavettvangi sem gætu haft ófyrirséð áhrif.