Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) standa fyrir Ferðaþjónustudeginum 2022 í Norðurljósum í Hörpu í dag, kl. 15 í dag. Á fundinum verður fjallað um ferðaþjónustu með tilliti til verðmætasköpunar og stöðunnar í hagkerfinu, áhrif greinarinnar á samfélagið og hvað þarf til að tryggja jákvæða uppbyggingu til framtíðar. Streymi af fundinum má finna hér að neðan.

„Íslensk ferðaþjónusta hefur risið hratt upp úr viðjum heimsfaraldurs en áskoranirnar framundan eru þó fjölmargar,“ segir í fundarboði SAF.

Meðal þátttakenda í ferðaþjónustudeginum í ár eru Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, sem munu rýna í stöðu og samspil ferðaþjónustu við aðra þætti efnahagslífsins í kjölfar heimsfaraldurs og í ljósi áskorana í ríkisfjármálum, verðbólguþróun.

Þá munu Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar og Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Vök Baths ræða hvernig má viðhalda og styðja jákvæð áhrif ferðaþjónustu á samfélagið, sér í lagi utan höfuðborgarsvæðisins.

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF og Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri munu draga fram áskoranir sem leysa þarf úr til að ferðaþjónusta geti þróast áfram sem jákvæður burðarás efnahagslífs og samfélags.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála opnar fundinn með ávarpi og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins horfir inn í haustið í lok fundar.