Breska flugfélagið easyJet tilkynnti í dag að það muni bjóða upp á flug frá bæði London Gatwick og Manchester til Akureyrar næsta vetur. Tilkynningin kemur í kjölfarið á góðum vetri hjá easyJet sem bauð í fyrsta sinn upp á flug frá London til Akureyrar.

Flogið verður á laugardögum og þriðjudögum til Manchester og London Gatwick. Í tilkynningu segir að fjöldi Breta á Íslandi yfir vetrartímann spili stórt hlutverk í ákvörðununni.

„Flug easyJet frá London Gatwick til Akureyrar hefur gengið mjög vel og fljótlega eftir að það byrjaði, hófst vinna samstarfsaðila við að tryggja flug á fleiri áfangastaði. Það er mikið fagnaðarefni að ákvörðun um flug frá Manchester hafi verið tekin strax, í kjölfarið á góðum fyrsta vetri easyJet hér á Norðurlandi,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Jafnframt segir að Akureyringar hafi tekið því fagnandi að geta ferðast í beinu flugi til Bretlands og einnig áfram út í heim með tengimöguleikum á London Gatwick, sem aukast enn frekar með flugi til Manchester.

„Sem eina flugfélagið sem býður beint flug frá Bretlandi til Norðurlands, er það okkur sönn ánægja að bjóða upp á annan valmöguleika í flugi til Akureyrar frá Manchester flugvelli til viðbótar við brottfarir frá London Gatwick. Þetta býður ferðalöngum í bæði Bretlandi og á Norðurlandi fleiri möguleika og tengingar. Við erum staðráðin í að styðja við þróun ferðaþjónustu á Íslandi og hlökkum til að bjóða okkar viðskiptavini velkomna um borð næsta vetur,“ segir Ali Gayward, svæðisstjóri easyJet í Bretlandi.