Á síðasta þingi lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp sem hefði heimilað sölu handverksbrugghúsa „beint frá býli“ ef svo má að orði komast. Málið var samþykkt með fyrirvörum af þingflokkum Framsóknar og Vinstri grænna en – líkt og ávallt þegar breytingar á áfengislöggjöfinni eru ræddar – höfðu menn áhyggjur af lýðheilsu, börnum og auknu aðgengi. Frumvarpið komst gegnum fyrstu umræðu en dagaði uppi í nefnd.

„Þetta yrði gríðarleg búbót fyrir brugghúsin. Til brugghúsanna um land allt kemur fjöldi af áhugasömum ferðamönnum en við megum því miður ekki selja þeim bjór til þess að njóta síðar eða bjór sem þeir vilja gefa áfram til áhugasamra vina eða fjölskyldu í sínu heimalandi. Ég held að það sé líka alveg ljóst að þessi sala beint frá framleiðanda yrði aldrei í slíku magni að það færi að koma niður á sölutölum Vínbúðarinnar, nema síður sé. Það mætti miklu frekar færa rök fyrir því að einstaklingar, innlendir sem og erlendir, myndu versla oftar við Vínbúðina til að kaupa aftur eitthvað sem þau brögðuðu fyrr í ferð sinn um landið og hefðu annars ekki keypt í Vínbúðinni,“ segir Laufey Sif Lárusdótir, formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa.

Að sögn Laufeyjar einkenna þrjú atriði íslensk handverksbrugghús: áhersla á gæði, stærð og sjálfstæði. Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá eða með ársframleiðslu undir milljón lítra á ári en af 22 aðilum í Samtökum íslenskra handverksbrugghús þá eru 19 brugghús sem framleiða bjór og samanlögð er ársframleiðsla þeirra um 1,2 milljónir lítra af bjór sem samsvarar um 4% af bjórmarkaði á Íslandi. Langstærsta handverksbrugghúsið er Kaldi á Árskógsströnd en framleiðsla þess er ríflega 700 þúsund lítrar á ári.

Annað sem hefur verið nefnt til sögunnar til að létta undir með handverksbrugghúsum er að veita allt að helmingsafslátt á áfengisgjaldi til þeirra sem flokkast sem slík. Tvö slík þingmannamál voru lögð fram á síðasta þingi en náðu ekki fram að ganga.

„Hugsanlega gæti ríkið orðið af örlitlum tekjum en það er ekki mikið í samanburði við þau jákvæðu áhrif sem lækkun á áfengisgjaldi og heimild á sölu bjór „beint frá-býli“ hefði á alla þessa framleiðendur. Rekstrargrundvöllur félaganna yrði allt annar og störfum myndi fjölga, frekar yrði ráðist í fjárfestingar eða þróunarstarf myndi stóraukast,“ segir Laufey Sif og vonast til þess að næsta þing muni ræða málin af fullri alvöru. „Fordæmin frá nágrannalöndunum eru til og við hljótum öll að geta verið sammála, þvert á alla flokka, um að reyna að ryðja hindrunum úr vegi þessa líflega iðnaðar og leyfa honum þannig að blómstra almennilega.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .