Ársfundur Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, hefst klukkan 13:30 í Silfurbergi í Hörpu í dag en yfirskrift fundarins í ár er Framkvæmum fyrir framtíðina.

Farið verður yfir mikilvægi framkvæmda fyrir komandi kynslóðir, áskoranir í fjármögnun og skipulagi og hvernig þær eru samofnar efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar, loftslagsmarkmiðum og lífsgæðum almennings. Þá verða kynntar nýjar tölur um fyrirhugaðar fjárfestingar í orku- og veituinnviðum næstu fimm árin.

Meðal þeirra sem koma fram eru Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Þá verða Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna og nýkjörinn formaður Samorku, með erindi. Auk þeirra koma fram ýmsir stjórnendur í orku- og veitugeiranum.

Þar á meðal Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri ON, Baldur Hauksson, deildarstjóri tækniþróunar hjá ON, Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og framtíðar hjá RARIK, Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar, Páll Erland, forstjóri HS Veitna, Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti, og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.