Heilbrigðisþing helgað lýðheilsu um forvarnir, heilsueflingu og heilsulæsi hefst kl. 9 í dag með opnunarávarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra.

„Á þinginu verður einstaklingurinn í forgrunni með áherslu á allt það sem við getum sjálf gert til að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Jafnframt verður fjallað um hvernig stjórnvöld og stofnanir samfélagsins geta með ákvörðunum sínum og aðgerðum skapað almenningi sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum æviskeiðum,“ segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030, þar sem fram koma markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu.

„Með því að helga þingið í ár lýðheilsu er fylgt eftir þeim áherslum sem fram koma í nýrri lýðheilsustefnu með áherslu á innleiðingu hennar.“