Fjármálaráðuneytið og Íslandsbanki standa fyrir opnum kynningarfundi um yfirstandandi hlutafjárútboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Fundurinn, sem fer fram á Grand Hótel Reykjavík, hefst kl. 16:30 í dag.

Almennt hlutafjárútboðið í Íslandsbanka hófst í gærmorgun og gert er ráð fyrir að því ljúki á morgun klukkan 17:00.

Grunnmagn útboðsins nær til allt að 376.094.154 hluta í Íslandsbanka hf, eða 20% af heildarhlutafé bankans.

Miðað við 106,56 króna útboðsgengið í tilboðsbók A má ætla að söluandvirði ríkisins verður a.m.k. 40 milljarðar króna en upplýst var í gær um að sameiginlegir umsjónaraðilar hefðu móttekið pantanir umfram grunnmagn.

Áskriftir í tilboðsbókar A, þ.e. fyrir almenna fjárfesta, verða ekki skertar niður fyrir 2 milljónir króna „nema það reynist nauðsynlegt til að mæta eftirspurn og skal það þá gert hlutfallslega”.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður úthlutunar í útboðinu verði tilkynntar fjárfestum þann 16. maí 2025 fyrir opnun markaða.

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, ræddi um útboðið, starfsemi bankans og áhuga hans á ytri vexti í forsíðuviðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

Nálgast má kynningu um útboðið hér.