Almennt útboð á ríflega 37% hlut í Nova hefst klukkan 10 í dag. Stjórnendur Nova munu kynna rekstur og sögu fjarskiptafélagsins ásamt því að fara yfir hlutafjárútboðið á opnum kynningarfundi í Arion banka sem hefst einnig klukkan 10. Streymi af fundinum má finna hér að neðan.

Útboðið mun standa yfir í viku og lýkur klukkan 16 föstudaginn 10. Júní. Ráðgert er að niðurstaða útboðsins og úthlutun verði tilkynnt mánudaginn 13. júní.

Lágmarksupphæð áskrifta er 100 þúsund krónur. Útboðið fer fram í tveimur áskriftarbókum. Í áskriftarbók A verður tekið við áskriftum undir 20 milljónum króna á föstu gengi 5,11 krónur á hlut. Í áskriftarbók B verður tekið við áskriftum yfir 20 milljónum króna á lágmarksgengi 5,11 krónum á hlut og mun endanlegt gengi ákvarðast af áskriftum.

Seldir verða 1.416.773.033 hlutir, eða sem samsvarar um 37,1% af útgefnu hlutafé félagsins. Heimild er til allt að fimmtungsstækkunar útboðsins eða upp í 44,5% útgefins hlutafjár.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, var í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Þar var fjallað um mikinn vöxt frá stofnun ásamt framtíðarsýn stjórnenda þess.