Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar verða kynntar á viðburði Stjórnvísi á Grand Hótel sem hefst kl. 08:30 í dag. Þetta er í 25. skiptið sem ánægja íslenskra fyrirtækja er mæld og að þessu sinni verða birtar niðurstöður fyrir 40 fyrirtæki í fimmtán atvinnugreinum. Beint streymi af viðburðinum er að finna hér að neðan.
Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Stjórnvísi og er framkvæmd í höndum Prósent. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á hana s.s. ímynd, mat á gæðum og þjónusta.
„Mikill heiður er fyrir fyrirtæki að vera hæst á sínum markaði í Íslensku ánægjuvoginni. Íslenska ánægjuvogin er mælikvarði á ánægju viðskiptavina sem er mæld reglulega yfir árið og gagnast fyrirtækjum sem mælikvarði á þeirra frammistöðu á milli ára og í samanburði við helstu samkeppnisaðila,“ segir Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Íslensku ánægjuvogarinnar og Stjórnvísis.
Trausti Haraldsson framkvæmdastjóri Prósent kynnir niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2023, m.a. niðurstöður einstakra fyrirtækja og markaða og breytingar frá fyrri árum.