Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun um breytingar á viðmiði við útreikning greiðslubyrðar þegar kemur að reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, gera nánari grein fyrir yfirlýsingu nefndarinnar á blaðamannafundi sem hefst klukkan 9:30.
Í yfirlýsingu nefndarinnar kom fram að viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar verður að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Nefndin ákvað einnig að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár.
Þá ákvað nefndin að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85%.