Ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar verða til umræðu á ráðstefnu IcelandSIF sem haldin verður í Hörpu í dag og á morgun, 15.-16. júní. Uppselt er á ráðstefnuna en beint streymi af henni má finna hér að neðan.

Þetta er fyrsta alþjóðlega ráðstefnan sem IcelandSIF stendur fyrir á vegum NordicSIF en systursamtök IcelandSIF á Norðurlöndum skiptast á að halda ráðstefnuna og kynna reynslu sína og þekkingu.

Þemað í ár er hafið og segir Kristbjörg M. Kristinsdóttir, stjórnarformaður IcelandSIF, tilhlökkunarefni að fá að kynna metnaðarfullt vísindastarf og nýsköpun sem hér er unnið í tengslum við nýtingu auðlindarinnar fyrir erlendum gestum. Þá verður einnig fjöldi erlendra fyrirlesara á fundinum sem munu deila þekkingu sinni.

„Það er einstaklega ánægjulegt að fá að kynna innlendum og erlendum gestum ráðstefnunnar þau skref sem verið er að taka í sjálfbærni tengdum hafinu hér á Íslandi,“ segir Kristbjörg M. Kristinsdóttir, stjórnarformaður IcelandSIF.

Fyrirlesarar og aðrir gestir ráðstefnunnar eru aðilar sem vilja vera í fararbroddi umræðu og skoðanaskipta í heimi ábyrgra fjárfestinga. Finna má dagskrá ráðstefnunnar hér.

Samtökunum IcelandSIF er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Samtökunum IcelandSIF er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.