Fjármálastöðugleikanefnd gerir grein fyrir yfirlýsingu sinni í morgun á opnum fundi í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík.
Á kynningarfundinum munu Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður fjármálastöðugleikanefndar, Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, og Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, gera grein fyrir yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og efni Fjármálastöðugleika 2024/2 og svara spurningum fundargesta.
Fundurinn hefst klukkan 9:30 og er hægt að fylgjast með í streymi neðar í fréttinni.
Nefndin ákvað meðal annars í morgun að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%.
„Álagspróf Seðlabanka Íslands á kerfislega mikilvæga banka gefa til kynna að þeir gætu staðist umtalsvert álag,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.
Hún bætir þó við að ekki hafi dregið úr áhættu í fjármálakerfinu og telur nefndin því mikilvægt að fjármálafyrirtæki búi við sterka eiginfjárstöðu.
Þrálát verðbólga samhliða hægari vexti efnahagsumsvifa gæti hins vegar skapað áskoranir fyrir fjármálakerfið.