Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, er fylgjandi því að halda í íslensku krónuna. Eftir stöðugleikaframlögin, endurreisn fjármálakerfisins í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 og losun gjaldeyrishafta gefst tækifæri til að fylgjast með kostum og göllum krónunnar þegar aðstæður í íslensku hagkerfi eru í lagi.
„Mín persónulega skoðun, gefum krónunni smá tíma,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.
Benedikt var varaformaður starfshóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann segir að í kringum þessa vinnu hafi verið mikil umræða um gjaldmiðlamál. Ýmsir hafi viljað leysa afar krefjandi stöðu þjóðarbúsins, m.a. í tengslum við slitabú bankanna og mögulegar Icesave-byrðar, með því að ganga í myntsamstarf við Evrópu.
„Þá var sjónarmið sem mér fannst vera mjög gott: Eigum við ekki að minnsta kosti að hreinsa til og laga stöðuna? Við höfðum tækifæri til þess - fórum mjög fast í kröfuhafana og píndum þá, sem skilaði stöðugleikaframlagi til ríkisins upp á sennilega yfir 700 milljarða í dag. Lækkuðum skuldir ríkissjóðs um yfir 20% af landsframleiðslu,“ segir Benedikt.
„Með því að gera þetta, þá núllstilltum við [hagkerfið] svolítið. Þá getum við a.m.k. prófað það, hvernig er að vera með krónu þar sem hlutirnir eru bara í lagi.“
Hagkerfið sveiflist ólíkt öðrum evrópskum hagkerfum
Í dag séu t.d. ekki gjaldeyrishöft auk þess sem viðskiptajöfnuður hefur verið talsvert jákvæðari en áður fyrr. Benedikt segir að aldrei hafi eins mikill sparnaður myndast í íslenska hagkerfinu og á síðustu 10-15 árum.
„Við erum með gjaldmiðil sem er [studdur] af endurnýjanlegum náttúruauðlindum, sem eru auðvitað próteinið í sjónum, fallvötnin og jarðhitinn okkar. Síðan hafa bæst fleiri stoðir inn í hagkerfið,“ segir Benedikt og nefnir þar þekkingariðnaðinn.
Hann kom stuttlega inn á mögulega ókosti sem hann sér við myntsamstarf við Seðlabanka Evrópu.
„Hagkerfið okkar er að sveiflast mjög ólíkt öðrum hagkerfum í Evrópu. Ef við festum okkur í einhverju myntsamstarfi þar sem vaxtastefnan er ekkert í tengingu við það sem er að gerast hjá okkur, lendum við ekki þá í einhverjum vandræðum? Svo erum við náttúrulega örhagkerfi, okkar sjónarmið við Evrópska seðlabankaborðið yrðu mjög lágvær.“
Benedikt minntist á þá gagnrýni sem hefur borið á góma að sjálfstæður gjaldmiðill í jafn litlu hagkerfi kunni að vera óstöðugur. Um leið og krónan veikist þá heyrist gjarnan í þessum gagnrýnisröddum.
„Staðreyndin er sú að þetta er bara ein stöðugasta myntin í Evrópu, búin að vera það síðustu ár. Er ekki evran bara búin að vera á einhverju mjög þröngu bili í 3-4 ár?“
Erlend fjármögnun og dýpri gjaldeyrismarkaður
Umræða um gjaldeyrismál í þættinum spratt upp úr því Benedikt hafði skömmu áður rætt um að íslensku bankarnir hafi á síðustu árum verið í auknum mæli að sækja sér fjármagn til íbúðalána með útgáfu í erlendri mynt. Dýpri gjaldeyrismarkaður myndi styðja við þessa þróun.
„Eins og staðan er núna þá stendur bönkunum til boða að fjármagna íbúðalánin sín erlendis, þó þau séu í íslenskum krónum, á hagstæðari kjörum heldur en bönkunum stendur til boða að fjármagna þau hér heima. Ef það væri hægt að koma þessari fjármögnun yfir í íslenskar krónur, þá myndi það líka skila sér til íbúðalántaka.“
Arion banki hafi byrjað fyrstur íslenska bankanna að gefa út sértryggð skuldabréf í evrum. Bankinn fékk í fyrstu útgáfunni í september 2021 bestu kjör sem íslenskur aðili, að íslenska ríkinu meðtöldu, hafði fengið á erlendum lánsfjármörkuðum í þrettán ár.
„Við gerðum þetta vegna þess að við tókum eftir því að í þeim löndum í Evrópu þar sem það eru sjálfstæðar myntir en ekki mikið af erlendum fjárfestum að kaupa ríkisskuldabréf eða önnur skuldabréfum í viðkomandi ríki, þá voru íbúðalánin fjármögnuð með þessum hætti.
Til dæmis í Noregi er 60% af öllu íbúðalánasafni norsku bankanna fjármagnað með því að gefa út sértryggð skuldabréf í evrum og selja það inn á evrópska markaði. Síðan er þessu bara komið yfir í norskar krónur og neytandinn finnur ekkert fyrir þessu. Hann fær bara betri kjör.“
Gætum náð fram svipuðu vaxtaálagi og hjá norrænu bönkunum
Auk ofangreindrar erlendrar fjármögnunar fyrir íbúðalán í íslenskum krónum telur Benedikt tækifæri til að stuðla að lækkun vaxta á íbúðalánum ef áhættuvogir, sem bönkunum ber að nota til þess að reikna eiginfjárbindinguna sína, væru líkara því sem er í Evrópu. Jafnframt standi íslenskir bankar frammi fyrir hæstu sértæku sköttunum í Evrópu.
Verði þættir á borð við áhættuvogir, eiginfjárkröfur, skatta og gjaldeyrismarkaðinn færðir til betri vegar „þá gætum við verið að sjá vaxtaálög sem eru bara í líkingu við það sem norrænir bankar eru að bjóða“.
Þáttastjórnendur spurðu Benedikt hvað honum finnist um ákall Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra um að bankaskatturinn verði hækkaður á ný.
„Hver borgar skattinn á endanum? [...] Neytendur, fyrirtæki og einstaklingar,“ svaraði hann og bætti við að Lilja ætti fremur að tala fyrir framangreindum breytingum.
Benedikt benti þó á að margt hafi áunnist á undanförnum árum til að bæta kjör íslenskra neytenda. Seðlabankinn haldi utan um mælingu á mismuninum á vöxtum óbundinna sparifjárreikninga og óverðtryggðra íbúðalánavaxta. Þessi vaxtamunur hafi ekki mælst lægri frá því að Seðlabankinn hóf mælingar árið 2016.
„Í rauninni hafa bæði innlánseigendur og íbúðalántakendur verið að njóta betri kjara núna heldur en hefur mælst síðan að Seðlabankinn byrjaði að mæla þetta árið 2016. Af hverju byrjaði hann ekki fyrr? Það er af því að fyrir þann tíma var kannski ekki mikið af óverðtryggðum íbúðalánum, þetta voru allt verðtryggð lán.“
Benedikt ræðir um gjaldeyrismál og tækifæri til að bjóða kjör lántakenda frá 1:31:00-1:38:40.