Hlutabréfaverð Kviku banka og Arion banka hækkaði talsvert í viðskiptum rétt fyrir lokun Kauphallarinnar í dag.

Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst má rekja hækkun á gengi bankanna til orðróma um stíf fundarhöld hjá stjórn Kviku banka í dag.

Ýmsir markaðsaðilar telja að tilkynnt gæti verið um samrunaviðræður milli Kviku og Arion innan tíðar, jafnvel í kvöld.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, hafi mætt upp í höfuðstöðvar Kviku banka í dag og fundað með Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku.

Hlutabréfaverð Kviku banka hækkaði um 4,1% í 630 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Á síðasta klukkutímanum fyrir lokun markaða hækkaði gengi bankans úr 18,2 krónum í 19,0 krónur á hlut, eða um nær 4,4%, í töluverðum viðskiptum.

Gengi Arion banka hækkaði sömuleiðis um 2% á síðasta klukkutímanum fyrir lokun Kauphallarinnar. Hlutabréfaverð Arion hækkaði um alls um 1,5% í yfir 400 milljóna veltu í dag.