Benedikt Ragnarsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Nova, seldi á fimmtudaginn 15 milljónir hluta í fjarskiptafélaginu fyrir 60 milljónir króna, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Gengið í viðskiptunum var 4,0 krónur á hlut.
Benedikt átti fyrir söluna 40,2 milljónir hluti í Nova í gegnum eignarhaldsfélagið 2020 ehf. samkvæmt skráningarlýsingu sem var birt í aðdraganda frumútboðs Nova í júní sl. Ætla má því að hann eigi nú um 25,2 milljónir hluta í Nova að markaðsvirði 107,5 milljónir króna.
Benedikt hóf störf sem verkefnastjóri hjá Nova árið 2008. Árið 2018 var hann ráðinn framkvæmdastjóri tækniþróunarsviðs fjarskiptafélagsins.
Fyrir rúmum mánuði síðan tilkynnti Nova um breytingar á framkvæmdastjórn sinni sem felast m.a. í að Benedikt tekur við nýju hlutverki innan félagsins og verður tækniþróunarstjóri. Benedikt mun leiða sviðið Tækni & nýsköpun þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn.