Viðskiptaráð Íslands segir að frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um breytingar á listamannalaunum sé ekki til þess fallið að aðstoða Íslendinga í baráttunni við verðbólgu og vexti.
Frumvarpið miðar að því að stofna þrjá nýja launasjóði og fjölga úthlutuðum mánaðarlegum starfslaunum. Kostnaður ríkisins við listmannalaunakerfið mun því aukast um hátt í milljarð króna.
Útgjöld til menningarmála eru með því mesta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði og því er eðlilegra að horfa til forgangsröðunar innan málaflokksins. Þörf er á endurskoðun á sjóðaumhverfi ríkisins. Frekar ætti að fækka sjóðum en fjölga,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs sem Gunnar Úlfarsson hagfræðingur skrifar.
Viðskiptaráð bendir á að nái frumvarpið fram að ganga verða útgjöld til launasjóða listamanna aukin um rúm 70%.
„Vert er að benda á að útgjöld til þessa málaflokks eru óvíða hærri en á Íslandi þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi. Sé pólitískur vilji til þess að auka framlög til listamannalauna ætti að forgangsraða fjármunum innan núverandi ramma en ekki auka útgjöld,“ skrifar Gunnar.
Samkvæmt frumvarpinu verða útgjöld til launasjóða listamanna aukin úr 977 milljónum króna í 1.677 milljónir á verðlagi dagsins í dag, í skrefum frá árinu 2025-2028.

„Aukin útgjöld í stað forgangsröðunar eru slæm skilaboð,“ skrifar Gunnar og ítrekar að eitt mikilvægasta verkefni íslensku þjóðarinnar er að vinna bug á verðbólgunni svo unnt sé að ná niður háu vaxtastigi.
„Nýverið voru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði undirritaðir en samningsaðilar settu sér skýr markmið um að gera langtímakjarasamning sem stuðli að því að endurheimta verðstöðugleika. Þar skipta aðgerðir stjórnvalda ekki síður máli. Frumvarpið ber ekki með sér að stefnt sé að aðhaldi í ríkisfjármálum til að styðja við markmið um að ná niður verðbólgu og vöxtum.“
„Í frumvarpinu er fyrirhugað að fjölga sjóðum á snærum menningar- og viðskiptaráðuneytisins um þrjá og verða launasjóðir listamanna því alls tíu talsins, en af óljósum ástæðum var heiðurslaunasjóður listamanna ekki meðtalinn í greinargerð frumvarpsins. Ráðuneytið hefur nú þegar umsjón með fleiri sjóðum en önnur ráðuneyti og telur Viðskiptaráð með öllu óþarft að fjölga þeim enn frekar.”