Við­skipta­ráð Ís­lands segir að frum­varp Lilju Al­freðs­dóttur, menningar- og við­skipta­ráð­herra, um breytingar á lista­manna­launum sé ekki til þess fallið að að­stoða Ís­lendinga í bar­áttunni við verð­bólgu og vexti.

Frum­varpið miðar að því að stofna þrjá nýja launa­sjóði og fjölga út­hlutuðum mánaðar­legum starfs­launum. Kostnaður ríkisins við list­manna­launa­kerfið mun því aukast um hátt í milljarð króna.

Út­gjöld til menningar­mála eru með því mesta sem þekkist í al­þjóð­legum saman­burði og því er eðli­legra að horfa til for­gangs­röðunar innan mála­flokksins. Þörf er á endur­skoðun á sjóða­um­hverfi ríkisins. Frekar ætti að fækka sjóðum en fjölga,“ segir í um­sögn Við­skipta­ráðs sem Gunnar Úlfars­son hag­fræðingur skrifar.

Við­skipta­ráð bendir á að nái frum­varpið fram að ganga verða út­gjöld til launasjóða listamanna aukin um rúm 70%.

„Vert er að benda á að út­gjöld til þessa mála­flokks eru ó­víða hærri en á Ís­landi þegar leið­rétt hefur verið fyrir verð­lagi. Sé pólitískur vilji til þess að auka fram­lög til lista­manna­launa ætti að for­gangs­raða fjár­munum innan nú­verandi ramma en ekki auka út­gjöld,“ skrifar Gunnar.

Sam­kvæmt frum­varpinu verða út­gjöld til launa­sjóða lista­manna aukin úr 977 milljónum króna í 1.677 milljónir á verð­lagi dagsins í dag, í skrefum frá árinu 2025-2028.

Ríkisútgjöld hérlendis í sérflokki.
Ríkisútgjöld hérlendis í sérflokki.

„Aukin út­gjöld í stað for­gangs­röðunar eru slæm skila­boð,“ skrifar Gunnar og í­trekar að eitt mikil­vægasta verk­efni ís­lensku þjóðarinnar er að vinna bug á verð­bólgunni svo unnt sé að ná niður háu vaxta­stigi.

„Ný­verið voru kjara­samningar á al­mennum vinnu­markaði undir­ritaðir en samnings­aðilar settu sér skýr mark­mið um að gera lang­tíma­kjara­samning sem stuðli að því að endur­heimta verð­stöðug­leika. Þar skipta að­gerðir stjórn­valda ekki síður máli. Frum­varpið ber ekki með sér að stefnt sé að að­haldi í ríkis­fjár­málum til að styðja við mark­mið um að ná niður verð­bólgu og vöxtum.“

„Í frum­varpinu er fyrir­hugað að fjölga sjóðum á snærum menningar- og við­skipta­ráðu­neytisins um þrjá og verða launa­sjóðir lista­manna því alls tíu talsins, en af ó­ljósum á­stæðum var heiðurs­launa­sjóður lista­manna ekki með­talinn í greinar­gerð frum­varpsins. Ráðu­neytið hefur nú þegar um­sjón með fleiri sjóðum en önnur ráðu­neyti og telur Við­skipta­ráð með öllu ó­þarft að fjölga þeim enn frekar.”