Í dag birtist grein eftir Bergþór Ólason þingmann Miðflokksins í Morgunblaðinu undir heitinu "Hvalreki eftirlitsiðnaðarins". Þar gagnrýnir hann harðlega fyrirætlun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að skylda hvalveiðibáta til að hafa dýravelferðarfulltrúi um borð og næsta sumar eftirlitsdýralækna um borð í öllum skipunum.

Bergþór segir í greininni:

„Meginmarkmiðið Svandísar Svavarsdóttur er því ljóst. Hún ætlar að þyngja róður hvalveiða þannig með eftirlitsiðnaði að þær hreinlega leggist af á endanum, jafnvel strax eftir tvö ár. Hvalveiðar eru ekkert annað en nýting á auðlind við Íslandsstrendur. Það að ráðherra matvæla geti með einu pennastriki breytt reglugerð þannig að nýting auðlindarinnar verði svo þung í vöfum að fyrir liggi að hún leggist af án allrar aðkomu löggjafarþingsins er með öllu óboðlegt.

En hvað gengur ráðherranum til með þessu aukna eftirliti og stækkun báknsins? Er ráðherrann að halda því fram að hvalveiðimenn geri það að leik sínum að draga dauðastríð hvala á langinn? Hverju á þessi nýi eftirlitsiðnaður að áorka? Það væri þá gott að fá það fram.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Og hvað næst? Er næst á dagskrá ráðherrans að það verði dýravelferðarfulltrúi með hverjum laxveiðimanni sem ætlar að sleppa laxi aftur í íslenskar ár? Skal vera dýravelferðarfulltrúi meðferðis í reiðtúrum um hálendi Íslands? Það er jú hætta á að hrossin fái ekki viðeigandi hvíld og að of þungur knapi sé settur á fíngerðan hest. Skal gæsaskyttan hafa með sér dýravelferðarfulltrúa sem tryggir að gæs sem særist finnist og sé síðan snúin úr hálslið með réttu handbragði?“

Bergþór endar á greinina á almennari nótum:

„Kostnaðurinn eykst, báknið stækkar og þau lífsgæði sem felast í því að fólki sé treyst til að sinna ýmist vinnu sinni af heilindum eða öðrum hugðarefnum í frístund eiga undir högg að sækja frá vinstri. Það verður fróðlegt að sjá hvort samstarfsflokkar Svandísar í ríkisstjórn ranki við sér í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili og standi í lappirnar fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu þegar kemur að auknum ríkisafskiptum og útbólgnum eftirlitsiðnaði í boði vinstrisins.“