Annar af tveimur þingmönnum Miðflokksins kveðst hlynntur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu samkvæmt niðurstöðum könnunar Viðskiptablaðsins meðal allra þingmanna.
Viðskiptablaðið sendi eftirfarandi fyrirspurn á alla þingmenn: „Ert þú sem þingmaður almennt hlynntur eða andvígur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu?“ Jafnframt var spurt um afstöðu til núverandi fyrirkomulags áfengissölu með einkaleyfi ÁTVR. Alls fengust svör frá 56 af 63 þingmönnum
Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir bæði skriflega og símleiðis.
Í skriflegu svari bendir Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, á að í langan tíma hafi erlendum netverslunum með áfengi verið heimilt að afhenda vörur sínar hér á landi.
„Erlendar netverslanir með áfengi eru eins og eyjarnar í Breiðafirði, óteljandi,“ segir Bergþór.
„Það er ekki ljóst með hvaða rökum er hægt að réttlæta að hindra íslensk fyrirtæki í að veita þjónustu hér á landi, sem erlendum fyrirtækjum er heimilt að veita. Í öllu falli er ástæða til að horfa til þess með jákvæðum augum að skattekjur af afkomu slíkrar starfsemi verði eftir hér heima í stað þess að hann endi erlendis.“
Hvað núverandi fyrirkomulag áfengissölu varðar segir Bergþór að það hafi þjónað landsmönnum um langa hríð.
„Í ljósi samfélagsbreytinga og þróunar í verslun almennt, er ástæða til að skoða fyrirkomulagið heildstætt, svo sem á við um fleiri svið samfélagsins, eins og starfsemi Ríkisútvarpsins svo eitt dæmi sé nefnt.“
Fjallað er ítarlega um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina og svör einstakra þingmanna hér.